Rigningarnótt

Smásaga

Rauður leigubíllinn silaðist eftir regnvotri götunni og hægði enn ferðina þegar bílljósin endurköstuðust af endurskinsmerkjum einmanna vegfaranda, sem virtist ætla yfir götuna, en hætti við þegar hann sá bílinn.

Í aftursæti bílsins sat maður í frakka, og undan hattinum rýndu dökkblá augu út í regnið, án þess að sjá nokkuð. Leigubílstjórinn leit öðru hvoru í spegilinn og fylgdist með þessum þögula, en ógnvekjandi farþega. Hann hugsaði með sér, að ef einhver væri líklegur til að ræna hann, væri það þessi maður. Samt gat hann ekki útskýrt fyrir sjálfum sér hvað það var sem hann var hræddur við, andlit farþegans var á engan hátt óvenjulegt, reyndar var það, við nánari athugun, einstaklega venjulegt. Maðurinn var að vísu klæddur eins og glæpamaður í bíómynd, og um leið og bílstjórinn gaf stefnuljós inn á bílastæðið ákvað hann að það væri liklega það eina grunsamlega við manninn.

Engu að síður varpaði hann öndinni léttar þegar farþeginn rétti honum þúsundkall og steig út án þess að gera sig líklegan til að taka við afganginum.

Maðurinn vafði frakkanum þéttar um sig og dró hattinn enn neðar, og gekk síðan af stað eftir gangstéttinni með regnið í fangið. Í vinstri hendi hélt hann á brúnni leðurskjalatösku, en hægri höndin var í vasanum. Án þess að taka höndina úr vasanum tók hann sígarettu úr hálftómum pakka, og sneri síðan bakinu í regnið meðan hann kveikti í henni.

Hann hafði gætt þess að fara úr leigubílnum við hinn enda götunnar, það var líklega óþarfi, en hann vildi ekki eiga það á hættu að nokkur sæi til hans, og fannst að gangandi maður væri ekki eins áberandi og leigubíll.

Þegar hann kom að húsinu leit hann í kringum sig, og gekk síðan inn í anddyrið. Honum létti við að komast inn úr rigningunni, og hann hristi mestu bleytuna af frakkanum. Síðan gekk hann að dyrasímanum og ýtti á alla hnappana nema einn, nafnið hennar var á honum. Þegar fyrsti íbúinn kom í dyrasímann sagðist hann vera "ég", og það brást ekki að þegar ringlaðar raddir fóru að tala hver ofan í aðra heyrðist suðið í lásnum og hann gekk inn.

Hann flýtti sér niður í geymsluna ef vera skyldi að einhver kæmi út á stigapallinn til að athuga hvað væri um að vera. Rúmri mínútu síðar lagði hann af stað upp stigann rólegum skrefum og reyndi að líta út fyrir að vera einn af íbúunum.

Hann staðnæmdist fyrir utan dyrnar hjá henni, bretti upp kragann og dró hattin niður fyrir augun. Hann opnaði töskuna og hélt henni í fanginu, hann hringdi dyrabjöllunni og fór síðan inn í töskuna, þannig að ekki var hægt að sjá á hverju hann hélt í höndinni.

Eftir stutta stund kom hún til dyra. Hún opnaði dyrnar til hálfs, og leit á hann með svip sem var einskonar sambland af forvitni og ótta, það var greinilegt að hún þekkti hann ekki.

Hann dró hanskaklædda höndina úr töskunni og rétti að henni. Í henni hélt hann á rauðri rós.

Hún brosti.


Líklega skrifað um 1990 og ætlað í skólablað MA, Muninn. Mig minnir að þetta hafi birst undir mínu venjulega dulnefni; Þorsteinn (innblásið af fyrsta bókasafnsskírteininu mínu!).

Þetta er auðvitað hrikaleg klisja, ekki alslæm en alls, alls ekki góð.