Vel klæddur maður
Leiktexti
Þannig atvikaðist það að þau dagaði tvö uppi við sama borð, sötrandi sitthvorn bjórinn og reyndu að vera ekki of vandræðaleg.
<hún>
Þú hlýtur að vera í verðbréfabransanum svona flott klæddur.
<hann, alvarlegur>
Nei, reyndar er ég leigumorðingi.
<hún hlær>
Þú! Jeah, right!
<hann horfist í augu við hana>
Heldur þú virkilega að allir leigumorðingjar þurfi að líta út eins og Bruce Willis eða Stallone?
Staðreyndin er að bestu morðingjarnir eru oftast þeir sem líta út eins og allir hinir, hverfa í fjöldann...
<hún sposk á svip>
Það getur nú varla verið mikið að gera hjá þér hérna á skerinu. Það er
ekki eins og menn finnist daglega með byssukúlu í hnakkanum hér í
höfuðborginni!
<dreypir á bjórnum>
<hann>
Nei, reyndar ekki. En menn eru að detta í höfnina, skjóta sig með haglabyssum, verða úti í fjallgöngum, fá hjartaáfall
<glottir>
... gamla góða reiðarslagið... deyja úr hundaæði...
<hún, áköf>
Hei, komm-on! Ég veit vel að það hefur ekki komið upp hundaæði á Íslandi síðan um aldamótin 1900 - sá það í Gettu betur um daginn!
<sigri hrósandi>
<hann fær sér sopa í rólegheitum>
Nei, fjölskyldan vildi víst ekki að það færi í blöðin...
<hún, kaldhæðin>
Þannig að þú ert þá svona alþjóðlegur glæpamaður. Eftirlýstur af Interpol og FBI, eða hvað?
<hann>
Nei, ætli það. Reyndar fór ég einu sinni til Færeyja, þvílíkt klúður!
<fær sér sopa>
Heldurðu að karluglan sem ég átti að afgreiða hafi ekki fengið
hjartaáfall og drepist sama dag og ég kom. Ég meina... ef hann hefði
getað drullast til að drepast deginum seinna hefðu þeir kannski trúað
því að ég hefði að ég hefði gert það, en nei... ég var í helvítis
flugvélinni á leiðinni þegar hann drapst. Það gat ekki verið augljósara.
Svo ég fékk ekki krónu út úr því helvíti. Nema kannski flugmiðann.
Og til að bíta höfuðið af skömminni þá var ekki flogið nema einu sinni
í viku, svo ég get sagt þér allt um það hvernig það er að vera á
fylleríi í Færeyjum. Það er ekki eins og það sé margt annað að gera þar!
<hún>
Og hvað kostar það svo að losna við einhvern?
<hann hallar sér fram>
Sko, þetta er ekkert persónulegt en verð er nokkuð sem ég ræði aldrei.
Sjáðu til, það geta allir logið því í þig að þeir séu leigumorðingjar...
<lyftir tómu glasinu>
...sérstaklega ef þeir eru í glasi. Ef maður er farinn að tala um verð
er maður næstum kominn út í samningaviðræður og þá er um að ræða
glæpsamlegt athæfi - þannig að, sorrí, en þetta ræði ég ekki.
<brosir>
Og eins og þeir segja í Ferrari-búðinni; "Ef þú þarft að spyrja um
verðið þá hefurðu ekki efni á bílnum!". Viltu annan bjór?
...
<hún brosir þegar hann sest aftur>
Þakka þér. Þú varst nú samt að ljúga þessu með morðin, ekki satt?
<brosir sínu blíðasta>
<hann dregur djúpt andann>
OK, svo þú vilt vita sannleikann um það hvernig ég eignaðist pening?
Það er ekkert sem ég er sérlega stoltur af, en á tímabili var ég í
klámmyndunum.
<hún, hæðin>
Já, eru þeir nú farnir að borga svona helvíti vel fyrir íslenska
heimilisiðnaðinn? Bara að dilla bossanum fyrir framan kameruna og fara
svo í Boss dressinu heim. Helvítis perrarnir!
<hann, hugsi>
Nei, ég var á þvælingi um Evrópu. Svona menningarreisu, pílagrímaferð.
Keypti lestarkort, drakk bjór og skoðaði kirkjur. Ég fékk að gista hjá
íslenskum strák á stúdentagarði í Berlín í nokkrar vikur. Ég borgaði
bjórinn og hann leyfði mér að sofa í stofusófanum.
Ég þvældist með honum í nokkur partý og í einu þeirra var svona lið... spreðandi peningum í allar áttir. Þegar þau sögðust vera í klámmyndum hélt ég náttúrulega fyrst að þau væru að djóka í mér en...
<horfir alvarlegur á hana>
Sko, þú mátt ekki skilja mig þannig að ég sé einhver dóphaus...
<annars hugar strýkur hann fram nasirnar með vísifingri og þumli eins og til að strjúka af sér sultardropa>
Það var þarna tímabil, nokkrar vikur sem ég var í helvítis rugli. Vissi næstum ekkert hvað ég var að gera. Lifandi dauður, þú veist... zombí. Þegar ég fattaði hvað var að gerast tróð ég peningunum í vasann og fór heim með fyrstu vél.
<teygar bjórinn>
Heima tóku við ömurlegustu dagar ævinnar, bara að bíða eftir að
fallöxin kæmi fljúgandi á mann. Í bransanum er náttúrulega enginn með
smokka og trúðu mér, þetta starf gefur hugtakinu skyndikynni alveg nýja
merkingu; "Nice to meet you. Doggy style? OK".
Maður getur ekki bara farið í blóðprufu daginn eftir til að tékka á AIDS, ég meina það getur tekið langan tíma áður en eitthvað kemur í ljós. Síðan þorði ég ekki að fara því manni fannst skömminni skárra að hafa áhyggjur heldur en að fá kannski að vita að maður væri að deyja. Ég var skíthræddur.
Svo kom í ljós að ég slapp með pensilín-kúr. Ég held að ég hafi aldrei verið jafn feginn og þegar ég fór í lokatékkið og mældist alveg hreinn. Djísöss hvað mér leið vel! Og eins og asni fór maður beint á fyllerí.
<glottir>
Þvílík fagnaðarlæti.
<hún með ýktum daðurtilburðum>
Hvernig er það, þarf maður ekki að vera með rosalega stórt tippi til að fá vinnu við klámmyndir.
<hann með pókersvip>
Jú.
<hún fer greinilega hjá sér, reynir að fela það með sopa>
<hann brosir með sér>
En ég get samt sagt þér að þetta er ekkert sem ég er sérlega stoltur
af. Ég bíð eiginlega í skelfingu eftir að einhver af vinum mínum hringi
í mig og segi "Heyrðu... ... ég var að horfa á einhverja ömurlega þýska
klámmynd, Schwartzwaldfucken eða eitthvað og heldurðu ekki að einn
drjólinn hafi verið bara nákvæmlega eins og þú. Hann hefði getað verið
tvíburabróðir þinn helvítið af honum!"
<hún tók eftir að nafnið vantaði>
Þú varst aldrei búinn að segja mér hvað þú heitir er það nokkuð? Ég heiti Anna.
<eftir stutt hik>
Gunnar... það er fínt nafn... Gunnar.
<hún horfir á hann, óörugg, hikandi>
<hann>
Og við hvað starfar þú, Anna?