Húsbekkískt runkminni og annar vitleysisgangur

Í gær var með stuttum fyrirvara blásið til Húsbekkískra endurfunda á Næsta bar. Mæting var alveg þokkaleg miðað við aðstæður og gaman að hitta þá sem mættu. Stemmningin var góð og ég var í hópi þeirra sem einna lengst þraukuðu (a.m.k. mér vitanlega). Ívið fleiri bjórum var slátrað en ég geri svona hversdags og ég var örlítið framlár þegar ég vaknaði. Eftir hefðbundinn fyrstuhjálpar morgunverð (Gatorade, parasetamól, banana, súkkulaði og fjölvítamín) og auka klukkutíma undir sæng við dagblaðalestur reis ég úr rekkju, merkilega hress.

Gærdagurinn fór að öðru leyti í að sofa út, sinna lágmarks heimilisstörfum og slæpast aðeins. Óskar og Kolbrún litu í heimsókn og smám saman tókst mér að vinna traust þeirrar stuttu (sem hafði ekkert litist á gestgjafann fyrst í stað) með strumpasafninu mínu. Þegar leið á heimsóknina tókum við meðal annars ágæta djammsessjón á trommuna mína. Síðan skaust ég út til að kjósa og kaupa grillkjöt. Sigmar bróðir kom í kvöldmat, sem ég held að hafi verið prýðilega heppnaður - manni er alltaf að fara fram á grillinu - og við horfðum saman á leikinn.

Að leik loknum skellti ég mér í skárri gallann og arkaði niður í bæ til endurfunda við leikskólanema. Ekki voru margir komnir þegar ég mætti, en eftir það fór smám saman að fjölga og þegar upp var staðið hafði drjúgur hluti hópsins a.m.k. rekið inn nefið. (Þó ber að taka fram að Hugleikskar heimtur voru með minnsta móti). Þar komst ég meðal annars að því að stór hluti nemenda hafði komið heim með kvef, einn samnemenda minna fyrir norðan hafði ekki náð við mig augnkontakt fyrr en á fimmta degi og hafði þá haft af því nokkrar áhyggjur, ég kynntist hugtakinu runkminni (sem mikið átti eftir að vera rætt um kvöldið), fékk hrós fyrir leik minn í hlutverki kattarandskotans, lagði drög að því að bæta við myndum í myndasafnið frá Húsabakka, var skammaður fyrir að vera trékarlalegur í faðmlagalistinni og lenti millum tveggja elda í ósköp notalegu handleggjanuddverkefni. (Auk annarra umræðuefna sem ekki verða tíunduð hér).

Af Næsta bar var svo haldið á Ölstofuna þar sem ég hitti tvo þarlenda fastagesti (a.m.k. í mínum augum); Nonna frænda og Dr. Lovísu Malaví. Á Ölstofunni var haldið áfram umræðum um runkminnni og önnur þjóðþrifamál stór og smá. Þar rakst ég líka á Hildi frænku í mýflugumynd (þ.e. hittingur vor var í mýflugumynd, Hildur var eins og hún á að sér að vera). Af Ölstofunni bárust leikar yfir á Kaffibarinn þar sem við Snorri og Huld gerðum mannfræðilega stúdíu á/í biðröðinni og mannlífi innan dyra. Ekki staldraði ég lengi við þar, en náði þó að eiga stutt samtal án orða við Svenna grafíker sem ég hef ekki hitt helv. lengi.

Klukkan að verða fjögur brá ég lox undir mig betri fótunum, beitti þeim til skiptis og rölti þannig heim á leið í bjartri og notalegri sumarnóttinni.

En nú skal stefnan tekin út í ferskt sunnudagslopt.


< Fyrri færsla:
Glamrokk og gítarsóló í Höllinni
Næsta færsla: >
Fussað yfir mbl.is
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry