Ég er... færsla

Ég er kominn aftur suður eftir notalega viku fyrir austan.

Ég er búinn að sjá Stútungasögu í Heiðmörk. Bráðskemmtilegt og ég mæli með ferð upp í mörkina. Lífleg sýning og vel leikin í stórkarlalegum leikstíl. Það hefur kosti og galla að sýna utanhúss, stundum var erfitt að fylgjast með hvað væri að gerast, þar sem raddir leikaranna bárust misvel. Yngri áhorfendur voru teknir að ókyrrast þegar leið á, enda efast ég um að nokkur undir 10 ára aldri skilji það sem fram fer. Gaman að vera loks búinn að sjá þetta lykilverk í Hugleikskri leikritun. (Næsta sýning er 5. ágúst).

Ég er búinn að setja nýjar myndir af Vilborgu frænku á vefinn.

Ég er að leita að leigjanda að íbúðinni minni. Þriggja herbergja, 70 m2 með risasvölum í vesturbænum. Leigist á raunvirði (afborganir + skattar og gjöld). Gæti verið leigð með húsgögnum. Laus í lok ágúst. Ég reyni eflaust að nota þennan vef til að auglýsa hana betur síðar, en áhugasamir geta sent mér póst.

Ég er ekki kominn með húsnæði í Köben, en hugsanlega gerist eitthvað í þeim málum í dag.

Ég er farinn að vakna á undan vekjaraklukkunni, sem er merki um að ég sé... ekki beint stressaður, en ýmislegt að brjótast um í kollinum á mér. Þegar klukkan svo hringdi í morgun tók sig upp eldri skilyrðing um að ég eigi að vera syfjaður eftir að hún hefur hringt, sú skilyrðing virkaði svo vel að ég steinsofnaði og svaf í hálftíma. Mottó sögunnar: Láta vekjaraklukkuna hringja fyrr í fyrramálið til að stytta andvökutímann.

Ég er búinn að komast að því að Reykjavíkurmaraþon og menningarnótt eru ekki 14. ágúst eins og ég hélt - heldur 21. Það setur ýmsa skipulagningu úr skorðum.

Ég er búinn að vera latur að hlaupa. Það fór aldrei svo að ég hlypi tvöfaldan skógarhring fyrir austan og eftir leiksýninguna í gær fannst mér ég vera að kvefast og ákvað að nota það sem afsökun fyrir því að fara ekki út.

Ég er búinn að skrifa 4. útgáfu einþáttungs um fólk sem festist í lyftu. Ég held að hann sé að verða tilbúinn til framlagningar.

Ég er kominn með hugmynd að jólaeinþáttungi skv. pöntun. Í honum yrði framliðinn forfaðir í aðalhlutverki og ég myndi styðjast við minningar afa míns. Hef samt ekki hugmynd um það hver framvindan verður, en enn er langt til jóla.

Ég er með lista af hlutum sem ég ætla að hrinda í framkvæmd í dag og á morgun. Sit samt enn á rassinum þegar komið er hádegi.

Ég er að vona að búið sé að ráða eftirmann minn svo ég geti gengið í að setja viðkomandi inn í starfið sem fyrst eftir að ég kem aftur í vinnuna. Efast samt um að málið sé komið svo langt.

Ég er á leið út úr húsi, núna.


< Fyrri færsla:
Húsabakkaminningar - þriðji þáttur
Næsta færsla: >
5 km: 30:30 mín
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry