Húsabakkaminningar - þriðji þáttur

Nú er svo komið að ég má ekki mæta í partí öðruvísi en ég sé spurður að því hvenær ég ætli að klára frásögninga frá Húsabakka. (Reyndar hef ég kannski ekki mætt í sérlega mörg partí upp á síðkastið - en það er aukaatriði). Verður nú látið undan áeggjan þeirri og myndast við að skrásetja þriðja hluta endurminninganna. Tekur nú fléttan að þykkna með leikrænum tilþrifum og blóðsúthellingum.

 1. Prologus (sögumaður ræskir sig)
 2. Kvöld- og næturdagskrá, helstu liðir
 3. Blóð, sviti og önnur leikræn tilþrif
 4. Leiklistarhátíðin 1, 2 og leika

Þriðji kapítuli: Blóð, sviti og önnur leikræn tilþrif

Eins og ég ýjaði að í fyrsta kapítula er ekki auðvelt að lýsa í stuttu máli því sem við fengumst við á námskeiðinu. Þó ætla ég hér með að gera (vanmáttuga) tilraun til að lýsa því hvernig þetta kom mér fyrir sjónir.

Ég veit að þetta er næstum vonlaust verkefni, en ég ætla samt að þrjóskast við - þó ekki nema til að skýra hina Sjeikspírsku leiktækni sem beitt var í knattleik við trúðana.

Svo ég haldi áfram að vitna í sjálfan mig þá vorum við að vinna með grunnelement í leiklist á frekar abstrakt hátt. Mikil áhersla var lögð á að vera vakandi fyrir því sem væri að gerast í "rýminu" og grípa hugmyndir (impúlsa) þegar þær (þeir) kviknuðu án þess að hugsa of mikið... Við gerðum alls konar æfingar sem of langt mál yrði að telja upp hér (og næsta vonlaust að lýsa þeim öllum) en það sem eflaust vakti mesta forvitni þeirra skólasystkina sem ekki voru á okkar námskeiði voru hreyfirútínurnar.

Smám saman bjuggum við til (hvert fyrir sig eftir ákveðinni forskrift) röð af hreyfingum og/eða stellingum sem við endurtókum undir ýmsum formerkjum og minnti eflaust einna helst á mjög undarlega danskóreógrafíu. Vafalaust lagði hver sinn skilning í það hvaða lærdóm okkur var ætlað að draga af þessu en í mínum huga var það aðallega tvennt sem mér fannst ég græða á þessu. Í fyrsta lagi var það holl ögrun að gera eitthvað sem maður hefur aldrei gert áður, t.d. að finna líkamsstöður sem lýsa orðunum "tunglskin, skáldlegur og eftirvænting", að vera steinn o.s.frv.

Í öðru lagi upplifði ég þetta sem ákveðna leið til að brjótast úr því fari að "standa bara kyrr" og fara með textann sinn. Fyrstu dagana unnum við ekki með neina texta, en smám saman bættist smá Shakespeare við og það er allt annað að fara með hendingar úr Rómeó og Júlíu þegar maður veltist um á gólfinu eða leikur tunglskin, heldur en ef maður stæði uppréttur og væri að rembast við að vera Rómeó. En nóg um það í bili - nú er ég farinn fram úr sjálfum mér.

Eins og ég nefndi þá vöktu tilburðir okkar ákveðna forvitni annarra nemenda og ég get ekki neitað því að stundum klóraði maður sér í kollinum yfir æfingunum. En maður flaut með straumnum og þó mér tækist ekki alltaf að lifa mig inn í það sem við vorum að gera hafði ég undantekningarlaust gaman af því sem við gerðum. Þótt það sé vissulega hægara sagt en gert fyrir menn af minni manngerð að brjótast út úr rökhugsunarrútínunni, þá er samt meinhollt að reyna :)

Til tilbreytingar ætla ég núna að vitna í aðra en sjálfa mig, því í síðasta tímanum okkar (þar sem við fórum í sameiningu yfir námskeiðið og upplifun okkar af því) sagði Steini Magg (sem kom rúmum degi seinna en við hin og fékk því ekki sama aðlögunartíma) frá því að fyrstu 1-2 dagana hefði hann oft litið í kringum sig og hugsað "Hvað í andskotanum er ég eiginlega að gera hér?".

Ein æfingin okkar fólst í eins konar látbragðsspuna, þ.e. við áttum hvert um sig að setja okkur í einhvers konar sögu og leika hana - þó þannig að við fylgdumst með því hvað hinir væru að gera og værum vakandi fyrir því að taka þátt í þeirra sögum ef færi gæfist (grípa impúlsana). Mér flaug í hug að vera maður sem skyndilega hefði vaknað upp í þessum félagsskap og vissi ekkert hvað á sig stæði veðrið - það var ekki erfitt að ímynda sér hvernig þessi hópur furðufugla liti út í augum ókunnugra! (Skömmu síðar var ég búinn að deyja úr reykeitrun, endurholdgast, snæða við varðeld, tilbiðja síbreytileg skurðgoð, taka þátt í róðrakeppni og svo miklu, miklu meira).

Svo ég reyni að koma einhvers konar vitrænni og línulegri frásögn aftur inn í þetta hipsumhaps mitt þá var eins og áður sagði ekki unnið með neina texta fyrstu dagana, en að kvöldi þriðja dags (að mig minnir) var okkur úthlutað nokkrum "best of" senum áðurnefnds Shakespeare til að vinna með. Senurnar höfðum við reyndar fengið sendar heim nokkru fyrir námskeiðið til að stúdera þær, en þarna var okkur "kastað" í hlutverk. Þannig hittist á að í hópnum vorum við jafnmörg af hvoru kyni og því var hægt að raða okkur upp í parasenur úr ýmsum verkum. Ég held ég fari rétt með að við höfum verið með:

 • Hamlet og móður hans
 • Mackbeth og lafði hans
 • Ríkharð III og Önnu
 • Ríkharð III og drottninguna (tvisvar)
 • Rómeó og Júlíu
 • Grísku elskendurna fjóra úr Draumi á Jónsmessunótt

Eins og sjá má vorum við með þrjú stykki af Ríkharði III (tilviljun? ég held ekki), en ég þori ekki að sverja hvort það voru Önnurnar sem voru tvær eða drottningarnar - enda skiptir það kannski ekki öllu máli.

Að sjálfsögðu þótti enginn í leikhópnum betur til þess fallinn að leika erkielskhugann Rómeó en ykkar einlægur og undirritaður, móti tónlistargyðjunni Indru í hlutverki Júlíu.

Í lausum smugum næstu daga reyndum við að læra sem mest af textanum og þótt við gerðum lítið af því að vinna beint með senurnar þá höfðum við a.m.k. texta til að smjatta á meðan við gerðum æfingarnar okkar af miklum móð.

Undantekning á þessu var reyndar frábær seinnipartur þegar við fórum í glampandi sólskini og dýrðlegu veðri í trjálund í Svarfaðardalnum sem kallaður er Shakespeare lundurinn (a.m.k. innan leikskólans), þar sem við tókum nokkra klukkutíma í að æfa upp senurnar okkar í skóginum. Að æfingum loknum var svo leikin sena úr Draumnum og svalasenan fræga úr Rómeó og Júlíu, enda þóttu þessar senur eiga sérlega vel við í skóginum og við myndum fá að sjá hinar sýndar innanhúss þótt síðar yrði. Í okkar útgáfu af hinni heimsfrægu ástarsenu hófu elskendurnir ungu leika með sólgleraugu á nefjum og svalirnar höfðu breyst í birkitré sem Júlía hafði í frammi ósæmilega tilburði við, meðan sveimhuginn Rómeó sat fastur í skógarþykkni og flækti sig um koll í skáldlegum tilburðum. Sérdeilis skemmtilegt.

Ein af æfingunum sem við gerðum var að túlka tilfinningar, ýmist tilfinningar sem við völdum sjálf eða okkur var úthlutað. Við reyndum að setja okkur inn í viðkomandi tilfinningu, hvaða áhrif hefur hún á líkamsbeitingu, andlitssvip og rödd - og síðan að reyna að stækka hana eins og við mögulega gætum. Skrúfa í botn. Hvernig verður maður þegar maður er brjálæðislega reiður? Hamingjusamur? Eftirvæntingarfullur? Tortrygginn? Hræddur?

Þegar við vorum farin að slípast í textunum okkar fórum við tvö og tvö á "svið" í litla salnum okkar meðan hinir fylgdust með. Æfingin fólst þá í því að fara með það sem við kynnum af textunum okkar (og endurtaka eftir þörfum) og reyna allan tíman að vera í einhverri ákveðinni tilfinningu sem við máttum breyta eftir því sem impúlsinn bauð hverju sinni. Við áttum ekkert að hugsa um það hvort persónurnar myndu haga sér svona heldur bara nota textann sem hráefni í leikinn.

Hvert par fékkst við þetta í um það bil hálftíma og öll upplifðum við það sama, að gersamlega týna áhorfendum og vera bara í okkar eigin heimi (með Ástu sem leikstjóra á mörkum okkar heims og raunheima). Merkileg upplifun.

Í minningunni man ég helst eftir Hamlet og móður hans ræða dauða (uuu... hans þarna sem Hamlet drap í gegnum gardínuna og hélt að væri vondi kóngurinn) og ásakanir Hamlets um að móðir hans hefði tekið þátt í að myrða föður hans aftur og aftur og skiptu sífellt um hami. Eina stundina var Hamlet grátandi barn, þá næstu ofsóknaróður, síðan undirförull, auðmjúkur og svo koll af kolli. Og móðir hans tók svipuðum stakkaskiptum þannig að þarna fengum við hverja útgáfuna á eftir annarri af þessari senu þar sem hún breytti gersamlega um svip í hvert sinn.

Þótt ég hafi nefnt þau "mæðgin" hér þá fannst mér allir gera þetta ótrúlega vel og lifðu sig gersamlega inn í það sem var að gerast - jafnvel svo að í sumum senunum með Ríkharði þriðja hafði maður áhyggjur af því að leikararnir færu sér að voða í hamaganginum.

Ég verð að viðurkenna að ég átti ekki auðvelt með að leika á þennan tilfinningaskala, það er að segja ég átti erfitt með að gera tilfinningarnar "stórar" án þess að mér finndist ég vera að "feika það" - vera með einhverja uppgerð. Veit ekki hvort það segir mér að dramatískar rullur eigi ekki við mig - eða hvort ég er bara svona hófstilltur leikari...

Í tilfinningabombuútgáfu okkar Indru gerðist þó ýmislegt fróðlegt. Á tímabili varð Rómeó til dæmis gripinn skelfingarkasti og reyndi að krafla sig burt frá Júlíu sem hélt í hann dauðahaldi, skömmu áður hafði Júlía næstum dáið úr ást og þar áður hafði Rómeó legið við þvagláti af ótta við næturmyrkrið. Í lok senunnar var Rómeó nær dauða en lífi af þreytu og það lá við að ég skellti upp úr þegar ég kveikti á því að næsta setning sem ég myndi stynja út úr mér þar sem ég lá magnþrota upp við vegg væri: "Ég sveif á léttum vængjum ástarinnar og henni tálmar enginn múr!" Þessi vængjaði léttleiki var ekki mjög áberandi á þessum tímapunkti...

Þegar við lékum þessar senur komu hreyfirútínurnar oft að góðum notum til að brjóta upp klisjustellingar og til að prófa að blanda þeim inn í það sem við vorum að gera hverju sinni.

Í lok námskeiðsins tókum við síðan aðra svona skorpu, en þá út frá því hvað vakti fyrir persónunum og hvernig þær myndu bregðast við því sem væri í gangi. Það var ekki síður áhugavert því þá voru allir farnir að kunna sínar rullur þokkalega og gátu virkilega beitt fyrir sig textanum. Þetta gerðum við þó á sömu forsendum og áður, þ.e. þær tilfinningar sem brutust fram í persónunum reyndum við að stækka og ýkja.

Eins og Ásta benti á myndi þessi leið ekki vera farin til að setja upp heila leiksýningu, heldur frekar til að fá hugmyndir sem hægt væri síðan að vinna út frá. Þannig var í öllum senunum hægt að benda á nokkur augnablik sem voru mjög spennandi og sem gaman hefði verið að vinna meðvitað með - ef tími hefði gefist til.

En víkjum þá að blóðsúthellingunum sem ég var búinn að lofa.

Eins og áður sagði vildu forkólfar í trúðahópnum allt til vinna að skora samnemendur sína á hólm til knattleikjaiðkunar (til að fyrirbyggja frekari misskilning en nauðsynlegur er skal áréttað að eitt námskeiðanna sem haldið var snerist um trúðaleik).

Fljótlega var ljóst að líkamlegt atgervi og hreystimennsku væri helst að finna í grunnnámskeiði í leiklist (þ.e. hjá okkur Sjeikspírlíngum) og létum við til leiðast og tókum áskoruninni. Við lögðum þó upp með það að taka knattspyrnuhluta leiksins ekki of alvarlega heldur taka þetta okkar tökum.

Lagt var upp með það leikskipulag að leika "fallegan bolta" og með dramatískum tilþrifum eftir því sem færi gæfist á. Allir skyldu taka sér alteregó í persónum sínum og hvatningarhróp yrðu innblásin af textum hins látna skálds.

Trúðarnir tóku leikinn mun alvarlegar og stilltu upp fílefldu liði (ef mig misminnir ekki voru meira að segja sumir í alvöru fótboltaskóm). Ég bið trúðsfraukur velvirðingar ef ég hef þær fyrir rangri sök, en mig minnir endilega að trúðarnir hafi bara beitt tippalingum á vellinum meðan jafnréttið var mun meira hjá hinum síglaða sjeikspírflokki.

Misminni mig eitthvað um þennan leik skelli ég skuldinni á höfuðhögg eitt ógurlegt sem betur verður sagt frá innan skamms.

Okkur barst liðsstyrkur í formi fíleflds sjálfboðaliða af leikstjóranámskeiðinu og í síðari hálfleik tefldum við fram leynivopni sem trúðarnir áttu engin svör við - sjálfum kokknum!

Má ég hér til með að lauma inn einni tilvitnun í Sirkus: "Ekki skil ég neitt í því hvers vegna verið er að flytja hingað erlendan sirkus - hér eru tómir trúðar!"

Og áfram með smjörið...

Rómeó (þ.e. ég, fyrir lesendur með athyglisbrest) byrjaði utan vallar enda takmörk fyrir leikmannafjölda hverju sinni - illar trúðstungur hafa reyndar haldið því fram að á tímabili höfum við verið fleiri en reglur gerðu ráð fyrir. Við svörum því til að þar hafi vofa föður Hamlet laumað sér inn á völlinn algerlega án okkar vitundar!

Hvatningarópin voru eins og áður segir í sjeikspírskum anda og má þar til dæmis nefna:

 • Ekki á ég fleiri syni handa þér til að drepa!
 • Ríkharður er númer 1, 2 og 3!

Og ótal fleiri sem ég er búinn að gleyma. Þó er mér minnisstætt þegar einn hinna fílefldu trúða stökk hæð sína í loft upp í stuttbuxum og bol þegar hvæst var á hann af hliðarlínunni "Þú myrtir börnin mín!"

Trúðar hófu leik af kappi og áttu nokkur hættuleg færi. Mér þótti því rétt að þegar mér yrði skipt inn á myndi ég hefja leik í vörninni og þegar að skiptingu kom eftir nokkrar mínútur skeiðaði ég á minn stað í vörninni. Mitt fyrsta verkefni var að kljást við ofurframherjann Ármann (sem í skólanum er kenndur við sjávarspendýr) en hann var einna beittastur trúðanna og tókst með hattarbragði (e. hat trick) að skora öll þrjú mörk trúðanna af miklu harðfylgi. Upphófst mikið kapphlaup okkar tveggja um knöttinn sem lyktaði með því að Jón Mackbeth markvörður kom í úthlaup á hárréttum tímapunkti, sparkaði knettinum í burtu og við bögluðumst þar hver um annan. Í fallinu slæmdist upphandleggur (eða a.m.k. einhver útlimur) Ármanns af krafti í andlitið á mér þannig að smellurinn bergmálaði um höfuðkúpuna.

Sjálfsgreining leiddi snarlega í ljós að höfuðið tolldi enn á búknum, en mér þótti réttast að skipta mér snarlega út af meðan líðan væri könnuð nánar. Á leiðinni út af brast á með því sem mig grunti að væri yfirvofandi; blóðnösum.

Ég greip báðum höndum um blóðugt nef mér og stuttu síðar höfðu aðstoðarmenn á hliðarlínunni sótt pappír sem ég tróð í nefið á mér, hálfri klósettrúllu í hvora nös. Höfuðsmellurinn virtist ekki hafa haft önnur áhrif þannig að ég fylgdist með af hliðarlínunni frekar en að draga mig í hlé.

Leikurinn hélt áfram og þrátt fyrir harða baráttu af okkar hálfu tókst trúðunum (Ármanni) að pota inn tveimur mörkum gegn engu okkar og útlitið var tekið að dökkna. Við hvert mark sem trúðarnir skoruðu brast mikill harmur á hóp sjeikspíra sem lögðust í grasið og rifu hár sín og skegg. Til annarra leikrænna tilþrifa má telja þegar Gunna Lára varð fyrir hnjaski og féll í grasið sem örend væri. Var úr þessu gjörður mikill harmleikur og hún borin af velli með tilþrifum til þess að hressast snarlega þegar út af vellinum var komið.

Verandi tveimur mörkum undir gripum við til þess snilldarbragðs að skella Gústa kokki inn á völlinn, en hann hafði þangað til staðið við hliðarlínuna dulbúinn sem áhorfandi. Skipti engum togum að með innkomu hans öðlaðist leikur okkar nýja vídd, enda beitti hann skemmtilegri rangstöðutaktík (sem fólst aðallega í því að hanga við mark andstæðinganna og vera ógnandi). Gústi minnkaði muninn, Ármann skoraði þriðja markið og Gústi minnkaði aftur muninn. Trúðar voru teknir að svitna og pressa vor að marki að aukast, en þrátt fyrir efnileg færi á lokamínútum leiksins urðu lyktir þær að trúðarnir unnu 3-2.

Ég kom ekki meira inn á í leiknum, enda átti ég í basli með að stöðva blæðinguna almennilega. Þótti bólga nefsins með ólíkindum og ég illa útleikinn, en ég reyndi nefmæltur að útskýra að þetta væri aðallega klósettpappír.

Bólgið og blóðugt nef

Úttroðið neb (og stríðsmálaðar kinnar)

Þar sem nef mitt hefur löngum vaxið í sínar eigin stefnur var ekki gott að sjá hvort það hefði brotnað, en þukl benti til þess að við brot hafi verið sloppið þótt allt væri það helaumt. Hálftíma eftir leik fór mér hins vegar að líða nokkru verr með höfuðverk og svima. Mér fannst ekki geta staðist að þetta væri heilahristingur, enda var þá liðinn næstum klukkutími frá smellnum ógurlega. Spjall við föður minn lækninn leiddi af sér þá greiningu að þetta væri líklega vöðvaspenna úr hálsinum frá hnykknum að leiða upp í höfuð. Verkjatafla, liðkunaræfingar og bið dugðu enda til þess að lækna þetta mein.

Nefið var hins vegar helaumt lengi á eftir, marið rann smám saman niður á við og nokkrum vikum seinna mátti enn finna vott af eymslum ef það var hraustlega kreist.

Rétt er að taka fram að þrátt fyrir stórkarlalegar lýsingar þá var þetta algert slys og enginn ásetningur af hálfu Ármanns (hann vissi raunar ekki af þessu fyrr en ég sagði honum frá því síðar um kvöldið.

Nú er rétt að setja hér lokapunkt og lofa að skrifa (og birta) fjórða og síðasta kapítula Húsabakkaminninga einhvern tíman áður en ég fer til útlandsins. Þar verður sagt frá kynnisferð okkar til hinna hópanna, leiklistarhátíðinni "1, 2 og leika" og skólalokum.

 1. Prologus (sögumaður ræskir sig)
 2. Kvöld- og næturdagskrá, helstu liðir
 3. Blóð, sviti og önnur leikræn tilþrif
 4. Leiklistarhátíðin 1, 2 og leika

< Fyrri færsla:
Skógarhringur og aðflug: tæpar 24 mín
Næsta færsla: >
Ég er... færsla
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry