Frábær mockumentary frá meistara Jackson
09. október 2004 | 0 aths.
Andreas hefur hvatt mig til að ganga í DVD safnið hans að vild. Ég lét greipar sópa á fimmtudagskvöldið og greip mynd sem ég hafði aldrei heyrt um áður, Forgotten Silver, eftir Peter Jackson og Costa Bodes. Snilldar mynd!
Þetta er um klukkutímalöng mynd gerð fyrir Nýsjálenska sjónvarpið og segir frá hinum gleymdu afrekum nýsjálenska kvikmyndafrömuðarins Colin McKenzie. Myndin er uppspuni frá upphafi til enda en frábærlega vel gerð. Á DVD disknum er behind-the-scenes þáttur undir nafninu Behind the Bull (greinilega tekinn upp eftir velgengi LOTR) þar sem Jackson og félagar fara í gegnum blekkingarnar lið fyrir lið og uppnámið sem myndin olli á Nýjasjálandi á sínum tíma.
Eitthvað var samt DVD forritið með stæla og mér tókst ekki að koma myndinni yfir í sjónvarpið. Kyrrmyndin í DVD forritinu skilaði sér, en allsstaðar þar sem hefði átt að sjást efni af disknum var bara svartur flötur. Það endaði með því að ég stillti fartölvunni upp ofan á sjónvarpinu og notaði það bara sem hátalara en horfði á myndina á fartölvuskjánum. Spurning hvort þetta hafi gerst þegar ég uppfærði í SP2? A.m.k. hef áður getað notað þessa uppsetningu án vandræða.
En ég mæli sem sé með Forgotten Silver fyrir alla þá sem hafa gaman af kvikmyndum og kvikmyndasögu. Spurning hvort maður fari að hætta sér í að sjá eitthvað af hrollvekjustórvirkjum Jacksons?
Útrætt mál
Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.
Comments are closed for this entry