Heimferð staðfest

Eftir töluvert bras er ég búinn að panta flugfar heim til Íslands fimmtudaginn 21. okt og út aftur mánudaginn 25. Ég veit ekki hvort það er bara klaufaskapur í mér eða hvort bókunarvélin hjá IcelandExpress gerir í því að klúðra dagsetningum ef maður flakkar fram og til baka í stað þess að fara bara línulega í gegnum bókunina?

Mánudagsflugið fæ ég á "fimmkall", en fyrir fimmtudaginn borga ég 800 DKK. Ég hafði spáð í að spara 200 kall með því að fljúga heim á föstudegi í staðinn, en ákvað að aukasólarhringur heima væri alveg þess virði - auk þess sem ég myndi hvort eð er ekkert gera af viti hér úti á fimmtudeginum.

Eftir þessar spökulasjónir ákvað ég að fljúga á fimmtudeginum, gaf upp mitt vísanúmer og staðfesti í bak og fyrir. Það var svo ekki fyrr en ég horfðist í augu við útprentunarsíðuna að ég sá að ég var búinn að staðfesta flug á laugardegi, ekki fimmtudegi!

Ég lenti í svipuðu í gær þegar ég var að spá og spökulera, en þá staðfesti ég auðvitað ekki neitt svo dagabrenglið truflaði mig ekki að ráði.

Frekar en að leiðrétta þetta á vefnum og þurfa þá pottþétt að borga leiðréttingargjald upp á 250 DKK ákvað ég að prófa að beita persónutöfrunum og hringja í ÍslandsHraðlestina. Þar svaraði mér símsvari sem harðneitaði að hleypa mér lengra og lagði á mig, þrátt fyrir að klukkan væri að verða 11 og þau hafi opnað klukkan 9.

Það tók gáfnaljósið mig smástund að kveikja á tveggja tíma tímamismuninum, en reyndi að hringja aftur rétt rúmlega 11 að dönskum tíma. Þá tók við spiladós sem tilkynnti mér reglulega að "Your call is important to us..." Í bakgrunninum heyrði ég soghljóðið þegar danska inneignin mín rann niður í niðurfallið og ég var farinn að sjá fram á að tilraunin til að spara myndi enda í algerri niðurlægingu. Blessunarlega kom að lokum mannleg rödd á hinn enda samtalsins og tók beiðni minni vel. Ég hef síðan staðfest að hún breytti bókuninni, krosslegg bara fingur að það hafi ekki kostað mig neitt aukalega. (Skv. staðfestingarsíðunni er upphæð bókunarinnar sú sama). Það kemur víst endanlega í ljós þegar vísareikningurinn birtist.


< Fyrri færsla:
Nú held ég heim!
Næsta færsla: >
Nasaþefur af menningarnótt með íslensku ívafi
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry