Nasaþefur af menningarnótt með íslensku ívafi

Á föstudag var menningarnótt hér í Köben. Þótt skömm sé frá að segja fór hún að mestu fram hjá mér þrátt fyrir göfug áform um að kynna mér það sem væri á boðstólum. Þrátt fyrir að vera hluthafi í helgaráskrift að Politiken sé ég ekki mikið af dagblöðum á virkum dögum og var satt best að segja búinn að steingleyma því að það væri menningarnótt. Það var ekki fyrr en nokkuð var liðið á Fredagsbar að hún barst í tal - en þá var heldur seint í botn gripið. Þó fékk ég smá nasaþef af nóttinni í íslenskum félagsskap.

Fyrr um daginn var opið hús hjá Digital Æstetik deildinni, en þar eru meðal annars tölvuleikjarannsóknir til húsa. Þangað kíkti ég með Jesper bekkjarfélaga mínum í snittur, léttvín og gos. Gestum til skemmtunar var meðal annars sjónvarp með EyeToy og risaflatskjár tengdur við dansmottur til að halda mönnum í formi. Þaðan kíktum við á fyrirlestur hjá einum stofnenda og sjórnenda leikjafyrirtækisins MediaMobsters sem eru þekktastir fyrir leikinn Gangland. Hann hélt áhugavert spjall um raunveruleika leikjabransas, gleði hans og raunir.

Þaðan lá svo leiðin á fredagsbarinn þar sem ég viðraði hugmynd að fjögurra vikna verkefni sem hefur verið að brjótast í kollinum á mér síðan ég sat undir predikun gestafyrirlesara í Computerspilteori fyrr í vikunni. Hér lýkur öllum önnum á fjögurra vikna verkefnatörn og við grænjaxlarnir erum farnir að velta vöngum yfir því hvernig þetta verði allt saman og hvað gæti verið áhugavert að kljást við.

Hugmyndin mín gengur út á að fá smá innsýn í leikjagerð með því að spreyta sig á því að búa til borð (level) fyrir einhvern þrívíddarskotleikjanna sem til eru á markaðnum - nánar tiltekið nota miðrýmið í skólanum sem vettvang fyrir sýndarblóðbað. Á Fredagsbarnum tók félagi Rasmus vel í hugmyndina, en það á enn eftir að sjá hvort við fáum kennara til að samþykkja verkefnið.

Milli níu og tíu yfirgaf ég Fredagsbarinn og kom við á leiðinni heim á hámborgarabúllu Cheungs þar sem ég greip með mér ostborgara og franskar. Eftir að hafa sporðrennt kræsingunum yfir sjónvarpsglápi og ráðfært mig við Kraks kortabókina góðu tók ég Metróinn upp á Kóngsins Nýtorg til móts við nafna minn Tótil, sem hafði sagt mér í MSN spjalli okkar fyrr um daginn að hann og Auja yrðu á Café Jónas á íslensku menningarkvöldi.

Um ellefuleitið var flestum viðburðum að ljúka og ef marka má aldurssamsetninguna í Metrónum virðist menningarnótt í Köben draga til sín svipað krád og heima. Metróstöðin á Kóngsins Nýtorgi var blá í tilefni dagsins, með bláum dreglum á gólfum og blárri lýsingu. Kom vel út.

Á Café Jónas sátu Tótil og co. í góðu yfirlæti. Þetta var fyrsti hittingur okkar Tóta hér í Köben, en ég á eftir að taka hann á orðinu um að fá leiðsögn hans um Norðurbrú við tækifæri. Við sátum þarna á spjalli við tvær íslenskar fraukur og skiptumst á sögum af kynnum okkar af baunum, á meðan sumbluðu þjóðskáld á næsta borði og hafi einhverjir danskir gestir verið á staðnum fór ekki mikið fyrir þeim.

Þegar skemmtanastjóri kvöldins (sem áður hafði tilkynnt í fjórgang að við værum næst á leið á pönkarabarinn að drekka anísbrennivín eins og Van Gough) (ég þóttist vita að hún ætti við absint, en lét það ósagt) skipti á fyrstu mínútunni eftir að við yfirgáfum Jónas þrisvar um skoðun á því hvert við værum að fara ákvað ég að nú stefndi kvöldið hraðbyr í að fjara út og ákvað að drífa mig heim. (Hversu margar málfræðireglur skyldi þessi síðasta setning hafa brotið?)

Á laugardaginn ætlaði ég að reyna að sýna smá dugnað og var kominn í skólann um tvöleytið með nesti og góðan ásetning. Tíminn fór hins vegar í að lesa vefdagbækur og grúska á netinu vegna pælinga um fjögurra vikna verkefnið. Ég skráði mig líka inn í nýja danska netbankann minn í fyrsta sinn, ég er kominn með Dankort (sem reyndar á eftir að virkja) og nú er bara að komast að því hvernig ég fer að því að flytja hingað peninga að heiman.

Andreas (sem hefur reynst begejstred yfir baðherbergisþrifunum) hafði fyrir nokkru boðið mér að koma með í partí til vina sinna, en ég var meira í rólegheitagír og hafði samband við Hönnu og Jesper og fór í framhaldi af því til þeirra og horfði með þeim á landsleikinn, Danmörk - Albanía. Þar var boðið upp á dýrindis fiskibollur með glænýjum kartöflum og heimasætan var í góðu stuði.

Á sunnudag var ég svo kominn í skólann um eittleytið og náði að taka smá skorpu í því sem ég ætlaði að gera á laugardeginum. Þar fékk ég líka tölvupóst um að Á uppleið verði sýnt í Borgarleikhúsinu og er því með hugann við að skreppa heim.

Pissu og kebabvinur minn Jonathan sýndi á sunnudag ný tilþrif í hugsanalestri og ég fékk pöntunina mína afgreidda án þess að hún færi nokkurn tíman í ofninn - hef grun um að ég hafi fengið ósótta pöntun, en hún var ekki verri fyrir það. Mission Impossible 2 hafði síðan ofan af fyrir mér um kvöldið.

Skólalega séð held ég nokkurn vegin striki þessa dagana, reyndar þarf ég að taka nokkra tíma í lestur til að halda dampi í Interaktionsdesign og vonandi tekst hópvinnunni okkar að takast á flug í vikunni.


< Fyrri færsla:
Heimferð staðfest
Næsta færsla: >
Innrás geispanna
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry