Nýtt ár í léttu stressi

Ritstjórn thorarinn.com óskar lesendum gleðilegs nýs árs í léttu stresskasti. Jólafríið næstum á enda og fyrsta próf ískyggilega nærri.

Þetta er skrifað eftir miðnætti á sunnudegi og því tæknilega séð á mánudegi. Á þriðjudag er útferð (!) og fyrsta próf á föstudag.

Ég vissi svo sem að ég myndi ekki læra mikið í fríinu, en hafði gert mér væntingar um að eftir annan í jólum gæti ég kannski tekið klukkutíma hér og þar í lestur. Raunin varð sú að ég byrjaði undirbúning um klukkan hálf-ellefu á nýárskvöldi.

Áramótum var fagnað í Hafnarfirði og eins og landslög gera ráð fyrir var geimið svo tryllt að ég skilaði mér ekki heim fyrr en síðdegis á nýársdag. (Annað hvort það, eða að áramótapartý Sigmars stefndi í að standa fram á morgun þannig að ég þáði boð um að gista í Firðinum.)

Fyrsta próf er reyndar ekki sérlega mikið stress, þar sem ég þekki efnið ágætlega. Hins vegar þyrfti ég að æfa mig í að forrita á pappír og fara vandlega yfir þau gögn sem ég ætla að taka með mér, því þetta próf er gullið tækifæri til að fá góða einkunn ef rétt er haldið á spöðum.

Næst er svo munnlegt próf þar sem ég þarf fyrst að klára að lesa greinarnar sem teknar voru fyrir í kúrsinum til þess að geta ákveðið hvað ég ætla að ræða í minni kynningu. Þar kreppir skóinn heldur, því ég á eftir að frumlesa stóran hluta.

Ég hélt ég væri kominn með leigjanda að íbúðinni og hafði látið þá sem voru volgastir vita af því að hún væri farin. Verðandi leigjandi hringdi hins vegar í mig á gamlársdag þar sem hans aðstæður höfðu breyst og hann hefði því aldrei verið nema mjög stutt í íbúðinni.

Ég vonast til að heyra frá þeim sem einnig hafði skoðað og lýst yfir áhuga. Ef ekki verð ég að treysta á að fá einhvern annan til að sýna fyrir mig og ganga frá samningum fyrir mína hönd.

Mánudagurinn er síðasti heili dagurinn minn hér á klakanum. Ég flýg um miðjan dag á þriðjudag og á ekki von á að hann nýtist neitt til lestrar.

Miðvikudagur og fimmtudagur fara því í prófundirbúning, pennaæfingar og útprentun gagna. Próf á föstudag og svo stressuð helgi fyrir næsta próf á þriðjudegi. Eftir það hægist heldur um og ég hef tæpa viku í næsta próf.

Lox fæ ég svo tvær vikur fyrir síðasta prófið, sem er munnleg vörn á fjögurra vikna verkefninu okkar. Þar á milli mun ég annað hvort reyna að vinna heilmikið frílans (að því gefnu að verkefni sem eru í deiglunni verði að veruleika) eða leggjast í ferðalög. Kemur í ljós.

En núna ætla ég að setjast upp í rúm með tebolla og kex og reyna að hakka í mig nokkrar greinar um Interaktionsdesign.

Lifið heil.

(PS. Kannski er rétt að taka fram að ég er reyndar hæfilega afslappaður yfir þessu öllu saman, þetta reddast allt einhvern vegin.)


< Fyrri færsla:
Jólastormurinn sem hvarf
Næsta færsla: >
Útgáfu ársskýrslu frestað
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry