Ambúlans, ammili og annir aðrar

Á laugardaginn var boltaspark á vegum FC Umulius í Fælledparken. Þar gerði leiðindaatvik það að verkum að kalla þurfti til sjúkrabíl vegna beinbrots - þó var orsök beinbrotsins hvorki fólskuleg tækling, hnédjúpu holurnar á vellinum né árekstur á mikilli ferð, heldur það sem virtist við fyrstu sýn sárasaklaus bylta.

Fram að beinbroti var það helst til tíðinda að ég tók með mér "gest", Sigga hennar Huldar, og tókst að þvælast með honum lítt gábbulega leið upp í Fælledparken. Ég á enn eftir að skoða á korti hvernig ég fór að því að hjóla skyndilega fram á Ráðhústorgið þegar ég var að svipast um eftir Kóngsins Nýtorgi (sem eins og íslensk alþjóð veit eru hvort á sínum enda Striksins). Allt hafðist þetta að lokum og við mættum um það leiti sem leikar voru að hefjast.

Kort hefur nú verið skoðað og sökudólgurinn er götuskratti meðfram síki sem sveigir í 90° í ranga átt í námunda við Christiansborg.

Um helgina voru bíllausir dagar í miðborginni, sem þýðir að stórum hluta hennar var lokað fyrir umferð. Eitthvað hefur það kostað, því á hverjum einustu gatnamótum útjaðarsins sem við hjóluðum framhjá voru a.m.k. tvær manneskjur í gulum vestum með merki Kaupmannahafnar og ein eða fleiri löggur.

Það hafði svo varla verið spilað nema í 5 mínútur þegar ein í hópnum datt eftir að hafa verið að kljást við Tóta um boltann og það var strax ljóst að hún hafði meiðst illa, úlnliðsbrotnað á hægri hendi og brotið virtist hafa gengið til. (Það skal tekið fram að ég gat ekki séð að þetta hafi á neinn hátt verið Tóta að kenna.)

Hringt var á sjúkrabíl sem okkur þótti öllum lengi á leiðnni, trúlega engum þó eins og þeirri úlnliðsbrotnu (sem ég í augnablikinu man ómögulega hvað heitir). Hann kom þó um síðir, framhandleggurinn var spelkaður og ekið á braut.

Menn voru skiljanlega hálfvankaðir eftir þetta, en það var samt ákveðið að spila smávegis. Við slysið hafði okkur fækkað um 2, þar sem Ben fór með henni á sjúkrahúsið. Eftir voru líklega um 7 á vegum FCU og álíka stór strákahópur sem hafði slegist í lið með okkur. Það var því blásið til leiks á ný og að þessu sinni við á móti þeim.

Það er í frásögur færandi að við vorum bara þrír íslíngar (ég, Siggi og TótiL) (enda var heildarhópurinn kannski fámennur). Eitt sinn þegar ég var að búa mig undir að taka hornspyrnu áttaði ég mig á því að við vorum allir þrír í sama liðinu, þannig að ég kallaði hátt og snjallt: "Ég ætla að taka hann fastan á nærstöng!" án þess að nokkur varnarmaður skildi mig. Siggi mætti á nærstöngina, en það dugði ekki til marks.

Þegar tekin var pása blés ekki byrlega, við vorum 0-4 undir og ólíkleg til sigurs. Í seinni hálfleik reyndum við að stilla skynsamlegar upp, og líklega hefur velgengni hinna stigið þeim til höfuðs - þannig að varnartilburðir þeirra voru í lágmarki. Skyndisóknir reyndust okkur sérlega áhrifaríkar og við Siggi skoruðum tvö hraðupphlaupsmörk hvor til að koma okkur í 4-4.

Við komumst svo í 5-4 áður en hinir jöfnuðu úr víti sem fallist var á að dæma eftir misskilning um hver væri í marki á því augnabliki. Þá var ákveðið að leika fram að úrslitamarki sem lét heldur bíða á eftir sér, en féll að lokum röngu megin.

Þegar hér var komið sögu var ég orðinn heldur seinn í þrítugsafmæli Jespers hennar Hönnu Birnu, þannig að við Siggi skelltum í klárana og brunuðum heim á Amager án þess að villast.

Ammili

Ég mætti reyndar gesta síðastur til Jespers, en mætti þó áður en sest var til borðs. Þar var boðið upp á kræsingar miklar og eftir matinn dregið fram sitthvað úr vínkjallara hússins. Ég var frekar stilltur í tíðinni, en dreypti þó auk bjórs og rauðvíns á púrtvínslögg, snafsi af The Ultimate Single Malt Whiskey og íslensku brennivíni(!)

Últimatið vakti fyrst athygli fyrir að vera næstum litlaust, síðan fyrir að vera í númeraðri flösku (þar sem númerið var handskrifað) og því næst fyrir hnausþykkan móþef. Móþefurinn var einnig áberandi í eftirbragðinu, "but in a good way".

Íslenska brennivínið bragðaðist bara prýðilega (þótt við stofuhita væri) og ég er alvarlega að velta vöngum yfir því hvort möguleiki sé að finna flösku af þeim veigum hjá vínsölum hérlendum. Eftir tvær vikur verður "Tour de chambre" hér á hæðinni þar sem ferðast er millum herbergja og dreypt á einhverju á hverjum stað. Ég sé fyrir mér íslenskt þema með brennivíni og t.d. Utangarðsmönnum í græjunum (því miður virðist ég ekki vera með Þursaflokkinn, sem væri náttúrulega langflottast).

Þar sem síðasta helgi fór illa forgörðum vegna þynnku voru ástundaðar áðurnefndar tíðarstillur og ég var kominn heim um eittleytið.

Þrif á eldhúsi

Eftir snemmbúið rumsk á sunnudagsmorgninum sofnaði ég aftur og var svo vakinn við símhringingu frá Esben nágranna mínum sem minnti á að okkar væru eldhúsþrif mánaðarins. Það var sum sé ákveðið á síðasta hæðarfundi að einu sinni í mánuði myndu þrír gangbúar sameinast um að þau eldhúsþrif sem falla utan við daglega snyrtimennsku.

Við vorum fyrsti hópurinn; ég, Esben og Dorthe (herb. 101-105) og fyrir vikið var af nógu að taka. Hnausþykkt sápuvatn og grófa hliðin á eldhússvömpum reyndust drjúgir bandamenn þegar þrifnar voru hurðir, ljós, gluggar utanverðir og aðrir skítlegir fletir. Að lokum tók Dorthe að sér að skúra gólfið meðan við Esben fórum út í búð að kaupa hressingu.

Það var því nokkuð dasaður en stoltur hópur sem gæddi sér á taramisu-rúllutertu og ís yfir kvikmyndaklassíkinni Delicatessen.

Næsta eldhúsplikt mín verður í maí á næsta ári - ef mig misminnir ekki.

Svo voru flass-ermarnar brettar aftur upp seinnipartinn og afrakstur þeirrar tarnar hefur áður verið gjörður opinber.


< Fyrri færsla:
Vantrú á landanum
Næsta færsla: >
Af háum tíðum
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry