Af háum tíðum

Þegar hátíðir eru annars vegar eru árshátíðir framarlega í flokki. Verst að það liggur í eðli þeirra að vera bara einu sinni á ári. (Reyndar minnir mig að í lögum bocciaklúbbsins Þrumu sé ákvæði um að árshátíðir félagsins skuli halda eins oft og þurfa þykir - engin hámörk um fjölda á ári). (Ekki svo að skilja að árshátíð Þrumu hafi verið haldin í mörg ár - kannski rétt að fara að huga að slíku, t.d. fyrir næsta ár?).

Árshátíð ITU var sem sé í gærkvöldi og eitthvað fram eftir nóttu. Það var að flestu leyti prýðisskemmtan og vel heppnuð.

Að vísu voru fáir úr mínum kunningjahópi í matnum, en við vorum þó nokkur sem fundum okkur saman og höfðum það notalegt. Reyndar gerði veislustjóri mér óleik með því að blása til fyrirlestrar rektors einmitt í þá mund þegar ég ætlaði að fara aðra ferð á hlaðborðið. Ég fékk mér þeim mun rösklegar af eftirréttarborðinu í staðinn.

Mér leist illa á blikuna þegar veislugestum var smalað inn í fyrirlestrarsal þar sem rektor stóð glaðbeittur með borgarstjóralegu gullkeðjuna sína og forsíða PowerPoint kynningar blasti við. Honum til hróss verður að segja að þetta reyndist vel heppnuð "interaktív" ræða með hrópum, klöppum og blístrum áhorfenda.

Síðan var blásið til dansleiks, fyrst með lifandi tónlist og síðan tók diskasnúður við keflinu. Ég hef reyndar dansað meira á svona samkomum, en fékk þó tækifæri til að sýna takmarkanir mínar í samhæfingu útlimahreyfinga, án þess að teljandi slys hlytust af.

Ég svaf með eindæmum laust og illa og um stund leit út fyrir að þetta yrði einn hinna óblíðu "morning after the night before". Það rættist þó úr því og eftir hádegismatinn hef ég verið glaðbeittur (en reyndar með snert af höfuðverk). Ég var langt kominn með að mana sjálfan mig út í hressingargöngu þegar brast á með slagveðursrigningu, þannig að útivistarlöngun minnkaði heldur.

Svo er að sjá hvort mér tekst að gera eitthvað sniðugt í dag og kvöld.


< Fyrri færsla:
Ambúlans, ammili og annir aðrar
Næsta færsla: >
Þrengt að kommentaspömmurum
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry