Apple gera það einu sinni enn...

Eftir ábendingu frá Ella bróður er ég að horfa á Steve Jobs kynna nýjustu leikföngin frá Apple; nýjan iMac, nýjan iPod og nýja útgáfu af iTunes. Ég held það sé engin ástæða til að linka neitt sérstaklega á einstakar græjur - ég geri ráð fyrir að allir netmiðlar verði fullir af fréttum af þessu á morgun (að því gefnu að þeir séu ekki þegar farnir að fyllast). Mér sýnist að þarna sé farið að votta fyrir uppfyllingu á mínum draumi um stofugræjur framtíðarinnar.

Hér er tengill á kynningu Jobs á vídeóformi.

iTunes búðin er núna farin að selja tónlistarmyndbönd, sjónvarpsþætti og stuttmyndir frá Pixar(!). Það styður við sögurnar um að langtímamarkmið sé að selja kvikmyndir gegnum iTunes (eða komandi systurvirkni). Orðið á götunni er að það séu einungis lagaleg mál sem eigi eftir að leysa - en um leið að þar sé enn nokkuð langt í land. Líklega munu þeir nota þessa nýju útgáfu til að reyna að sannfæra kvikmyndaverin um að þetta sé nógu örugg söluleið.

Nýi iPodinn er um leið fyrsti iPodinn til að spila vídeó - aftur eitthvað sem rætt hefur verið um lengi en almennt talið að til þess þyrfti að breyta arkitetúrnum töluvert, þótt þeir virðist núna búnir að græja það sem þarf.

En það sem mér finnst einna merkilegast er það sem þeir kalla Front Row; eins konar stjórnviðmót á Mac vél sem margmiðlunarmiðstöð heimilisins, stýrt með fjarstýringu sem lítur út eins og iPod Shuffle og með valmynd sem minnir á iPod stýrikerfið - þannig að hægt er að velja tónlist, playlista og kvikmyndir úr sófanum.

Þetta gæti ég vel hugsað mér sem viðmót fyrir stofuaðgang að tónlistarsafni framtíðarinnar. Það er spurning hvort geisladiskarnir í geymslunni fái nokkuð litið dagsins ljós á næstunni...

Spurningin er hvort maður myndi ekki vilja fá þessa valmynd bara upp á (stafræna) sjónvarpið og hafa tölvuna sjálfa falda einhversstaðar (frekar en að hafa tölvuna í aðalhlutverki í stofunni). Líklega verður komin ný útgáfa af Mac Mini áður en ég fer að innrétta stofu að nýju (hvar sem það nú verður).

Það er gaman að sjá kallinn á sviði, honum leiðist ekkert að sýna nýju leikföngin og monta sig af markaðshlutdeildinni.

Maður sá hlakka í honum við að bera saman nýju fjarstýringuna sína (með 6 hnöppum) og tvær fjarstýringar fyrir Microsoft heimakerfið (með 42 og 43 hnöppum - að mig minnir).

One more thing...

Og svona að lokum skellir hann fram þessu með sjónvarpsþættina, hvernig ætli sjónvarpsstöðvunum í Evrópu líki að hægt verði að kaupa jafnóðum nýjustu þættina af Lost og Desperate Housewifes (daginn eftir útsendingu)? Spurning hvort það lækki endursöluvirði þeirra...

(Að því gefnu auðvitað að ekki verði settir upp neinar landfræðilegar hamlanir.)

Upplausnin virðist svo sem ekkert geðveik, en ætti samt að duga, 30 rammar á sekúndu hljómar vissulega mjög vel.

Það verður fróðlegt að fylgjast með hvernig þróunin verður í þessari dreifingarleið fyrir myndefni á næstunni (sérstaklega eftir verkefnið mitt síðasta vor).

Uppfært: Miðað við þessa ítarlegu úttekt John Gruber á nýjungunum frá Apple, þá er eins og mig grunaði aðeins hægt að kaupa sjónvarpsþættina í Bandaríkjunum.

Hann er líka með svipaðar pælingar og ég - að Front Row viðmótið hljóti að enda á sjónvarpsskjá innan tíðar:

The full-screen UI of Front Row is just begging to be hooked up to a TV. Begging. Now that there exists a “video iPod”, the next new “Apple has to be working on this” mega-rumor is going to revolve around how Apple plans to bring this Front Row UI to your TV.

< Fyrri færsla:
Sumri hallar (undir flatt)
Næsta færsla: >
Bland í vefpoka
 


Athugasemdir (2)

1.

Siva reit 13. október 2005:

Já ég læt ljós mitt skína :)
Bara gaman að kíkja á þitt daglega líf, en það væri örugglega enn skemmtilegra ef ég hefði einhvern minnsta áhuga á tölvudóti! Gafst sko upp á þessum pistli mjög fljótlega, en það gerir nú ekkert til.
Krókurinn skartar sínu fegursta í dag, snjór yfir öllu, glampandi sólskin, rétt undir frostmarki og örlítil gola ... vetrarveður eins og það gerist best.

2.

Þórarinn sjálfur reit 13. október 2005:

Heldur þykir mér þú harðorð í minn garð ungfrú Sigurveig, ef litið er yfir dagbókina undanfarið hef ég mest verið að tala um drykkjur og taugaáföll, silfurskottur og haustliti.

En á hitt ber þó að líta að þetta væri nú varla dagbókin mín ef ekki væri örlítið tölvuraus hérna innan um.

Það setur að mér hroll við tilhugsunina um hitastig undir frostmarki - svona er maður orðinn spilltur í útlandinu. Hér fer reyndar að koma að því að ég þurfi að fara að skrúfa frá ofnum, en þangað til læt ég mér duga að loka glugganum og fara í aukapeysu á kvöldin.

Bestu kveðjur á vetrarkrókinn.

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry