Bland í vefpoka

Hér í útlandinu stendur núna yfir eftirársfrí, eða það sem á ástkæra ylhýra útleggðist eflaust sem haustfrí. Ég held ég fari rétt með að allir barnaskólar taki frí þessa viku og ég geri ráð fyrir að menntaskólar geri það líka. Í ITU var ekkert haustfrí í fyrra, en áþreifanleg afleiðing þessa haustfrís verður að önninni lýkur ekki fyrr en með verkefnaskilum klukkan 15:00 þann 23. desember næstkomandi.

Sem stendur er þetta haustfrí ekki sérlega áþreifanlegt í minni tilveru, enda ætti ég í venjulegri viku hvort eð er ekki að mæta í fyrirlestur fyrr en seinnipart miðvikudags. En planið er að reyna að nota vikuna í að flassast smá og reyna að vinna smávegis í 16 vikna verkefninu (og hugsanlega jafnvel kannski að leggja drög að mastersverkefninu!)

Heimkoma boðuð

Þar sem ég er einn um að skrifa 16 vikna verkefni sem skilast á í síðasta lagi þann 23. des. er ég sjálfráður um það hvenær ég set mína lokadagsetningu og sting af heim á klaka. Reynslan hefur kennt mér að það veitir ekkert af að nota allan þann tíma sem gefst til fínpússana, þannig að ég hef ákveðið að ég skila 22. og flýg heim þá um kvöldið.

Það er ekki nóg með að pjakkarnir skerði jólafríið í framendann, heldur hafa þeir líka kroppað í afturendann. Fyrsta prófið mitt verður nefnilega 4. janúar, þannig að ég þarf að fara út ekki seinna en 2. og hef einmitt keypt miða þann dag. (Veitir ekki af einum degi í að jafna sig á tímamismuninum).

Ég fer ekki nema í tvö próf, þar sem einkunnin í flash kúrsinum er eingöngu byggð á lokaverkefninu. Hvenær seinna prófið verður veit ég ekki, en veit þó að kennarinn sem ég er með sem leiðbeinanda í verklega kúrsinum er með próf í sínum kúrsi 3. og 4. janúar. Síðasta vor tók ég það kúrspróf og verkefnaprófið sama dag (hvorttveggja hálftíma löng munnleg próf), en í ár kemur það ekki til greina þar sem prófið sem ég er að fara í þann 4. er 6 tíma skriflegt próf.

Á klakanum stefni ég á að fara austur á Þorláksmessu og koma svo í höfuðborgina milli jóla og nýárs. Þar á ég að vísu eftir að redda mér gistingu og sjóleiðis, en geri ráð fyrir að það reddist (og horfi þar einkum til vesturbæxts útibúss föðurhúsanna).

Skrópað á menningarnótt

Hér var menningarnótt síðastliðinn föstudag. Dagskrá hennar hafði meira eða minna farið fram hjá mér (enda sé ég aldrei blöðin) og ég hafði ekkert skipulagt þegar það rifjaðist upp fyrir mér seinnipartinn að nú væri menningarnótt. Það var líka að hellast yfir mig kvef, þannig að ég lét nægja tiltölulega rólegan föstudagsbar og hélt mig svo heima um kvöldið.

Það var á mennningarnótt fyrir ári sem ég hitti lox Tóta og Auju hérna í útlandinu og þegar það rifjaðist upp fyrir mér þótti mér upplagt að drífa í því að heimsækja þau í nýjum heimkynnum. Upphaflega var stefnt á hitting á laugardagskvöldinu, en það breyttist yfir í sunnudagsbröns.

Um hádegið á sunnudegi bússaðist ég því uppeftir til þeirra og kíkti á íbúðina og dáðist að skriðdrekaheldu stálhurðinni sem hassklúbburinn í kjallaranum hjá þeim er búinn að koma sér upp. Karmarnir eru meira að segja með styrkingum sem ganga hátt í fet út á veggina til að ekki sé hægt að berja hurðina inn með karmi og öllu saman.

Við fengum okkur vel útilátinn bröns á kaffihúsi við Blágarðspláss sem var með einhverju mest jafnvægissviptandi salerni sem um getur; grunnflöturinn var ekki hornréttur og marglitar flísar á veggjunum voru allar lagðar í á að giska 30 gráðu halla. Þetta hafði mjög undarleg áhrif á rúmskynjun og jafnvægisskyn. Ég átti t.d. mjög erfitt með að átta mig á því hvort veggirnir væru lóðréttir eða hölluðu inn á við.

Þegar jafnvægi hafði aftur verið náð röltum við um hverfið, dáðumst að haustlitum í kirkjugarði aðstoðarmannsins og enduðum á að grúska í plötubúð áður en leiðir skildust og ég hélt heim til að undirbúa mig fyrir verkefnafund á mánudagsmorgninum.

Skriplað á hornafræðinni

Í flash tíma síðastliðinn fimmtudag beið stærðfræðikunnátta mín allnokkurn hnekki. Verkefnið sem við áttum að vinna þótti mér fyrir neðan mína virðingu þannig að ég fór að dunda mér við að forrita sprengingu, þ.e. að fá agnir til að þeytast út frá miðpunkti í handahófs-valda stefnu (nokkurnvegin svona). Ég var enga stund að hrista fram úr erminni smá sin() og cos() föll til að fá litlar kúlur til að hreyfast eins og til var ætlast.

Vandamálið upphófst hins vegar þegar ég ætlaði að búa til eldrákir og þurfti að snúa grafíkinni þannig að hún passaði við hreyfinguna. Snúningurinn er gefinn upp í gráðum, en hornaföllin í radíönum – ég vissi sem var að það væri lítið mál að breyta þar á milli, en sama hvað ég reyndi það gekk ekki upp. Grafíkin var alltaf á skjön við hreyfinguna.

Eftir ógurlegar gruflanir, höfuðleðursklór, leit á vefnum og nokkra fermetra af krassi tókst mér að fikta mig áfram að mjög undarlegri formúlu sem þó virtist virka.

Um kvöldið fékk ég svo bakþanka og kíkti betur á þetta. Þá hafði ég í snarheitum mínum skellt upp “réttum” sínus og kósínus föllum en tengt þau vitlaust við ásana, þannig að x varð y (og öfugt), ekki nema von að framhaldið hafi gengið brösuglega.

Flassað eins og vindurinn (í stafalogni)

Annars reyni ég oft þegar laus stund gefst þessa dagana að grúska í forritun á leiknum góða sem ég ætla að skila í flash-kúrsinum. Fyrsta skref er að forrita birtingarvirkni, þannig að boltarnir raði sér rétt upp og viti til hvers er ætlast af þeim.

Núna er ég búinn að skrifa einhverjar 120 línur og er kominn næstum því jafn langt og í því sem ég skellti upp á 15 mínútum með copy-paste þegar ég bjó til fyrstu útgáfu af boltaskoppinu. En þó bara næstum.

No more scotts?

Ekkert hefur bólað á silfurskottum vinum mínum síðan á hinni dramatísku laugardagsnótt fyrir rúmri viku. Ég get ekki státað mig af því að hafa drepið þær allar, enda gaf ég þeim tveimur sem ég sá þá nótt líf.

Ég var heldur ekki viss um að ná til þeirra án þess að slasa sjálfan mig, enda voru þær á bak við klósettið og jafnvægisskyn mitt kannski ekki með allra besta móti þarna um nóttina.

Til að svala morðfýsninni drap ég hins vegar kónguló áðan.

No more summer?

Þótt ég hafi séð glytta í garðyrkjumann á stuttbuxum í morgun hef ég ákveðið að úrskurða hann bara pervert. Það var skítakuldi í morgun og mátti sjá móta fyrir eigin andardrætti ef vel var að gáð.

Það fer líklega að koma að því að draga fram töskuna með vetrarfötunum og fara að blása lífi í dúnúlpuna góðu.

Að minnsta kosti skrúfaði ég frá ofninum í herberginu í fyrsta sinn síðastliðinn föstudag og er farinn að hafa gluggann skemur opinn á daginn en áður.

Læt hér með lokið í bili. Fleiri langlokur bíða birtingar.


< Fyrri færsla:
Apple gera það einu sinni enn...
Næsta færsla: >
Heilbrigðistækniverkefnahugleiðingar
 


Athugasemdir (2)

1.

Óskar Örn reit 18. október 2005:

Finnst hart að maður sem ætlar að eyða haustfríinu í að flassa kalli léttklæddan garðyrkjumann pervert! Myndi breyta þessum áætlunum svo við þurfum ekki að fara að beila þig út af Borgundarhólmi.
Að öðru leyti tek ég undir kvartanir Sivu um óhóf í tæknilegum langhundum á þessari annars ágætu síðu.
Og svo er ljótt að drepa dýr. Líka skordýr. Það segir Buddha.

2.

Óskar Örn reit 18. október 2005:

Auðvitað eru kóngulær strangt til tekið ekki skordýr en það er alveg sama....

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry