Aprílgabbið 2006

Þegar maður hefur skapað hefð fyrir brilljant vefgöbbum, ár eftir ár og meira að segja álpast til að falla fyrir síns eigins gabbhugmynd er ekki laust við að það sé komin viss pressa á að gera eitthvað snjallt.

Hvort það tókst þetta árið á eftir að sanna sig, en mér finnst þetta góð hugmynd. (Og er eins og flestar slíkar byggð á innblástri frá öðrum, meira um það neðar.)

Svindlari, svindli svindl!

Ég viðurkenni að það er örlítið óheiðarlegt að virkja gabbið 31. mars, en þar sem 1. apríl ber upp á laugardag og ég veit að ég fæ mun minni umferð um helgar er þetta einkum gert af tillitssemi við lesendur sem annars hefðu misst af upplifuninni!

Þess ber að geta að þetta á sér stoð í reglugerð Evrópusambandsins um aprílgöbb sem Ísland lögfesti 2003. Þar segir meðal annars:

[...]Beri 1.apríl upp á helgidag eða frídag er leyfilegt að hefja vefgöbb á síðasta virka degi fyrir 1.apríl. Enda sé skjalfest að umferð um viðkomandi vefsvæði sé merkjanlega minni á frídögum og viðkomandi gabb uppfylli þær kröfur til metnaðar sem lýst er í málsgrein 104.

Hvað gerðist annars?

Ef þú skyldir hafa misst af því hvað gerðist (eða vera að lesa þetta eftir 1. apríl) fólst spaugið í því að þegar beðið var um forsíðuna birtist þess í stað listi yfir möppur og skrár.

Fyrir þá sem eru kannski ekki innvígðir í veffræðin þá birtist svona listi á vefsvæðum þar sem vantar upphafsskrá (sem heitir oftast index.html) eða ef skráin hefur verið vistuð undir röngu nafni (t.d. indez.php í stað index.php).

Þegar þetta gerist er ekki nóg með að forsíðan birtist ekki sem skyldi, heldur verða sýnilegar skrár sem e.t.v. var aldrei ætlast til að almenningur kæmist í.

Í mínu tilviki leit listinn svona út (hér hafa þó allir tenglar verið gerðir óvirkir).

Þegar smellt er á einhvern af þessum tenglum er valið skráð í gagnagrunn og rétta forsíðan birtist með þökkum fyrir þátttökuna. Smákaka á svo að sjá til þess að gabbið sjáist bara einu sinni á hverri tölvu.

Hverju fellur fólk helst fyrir?

Ef listinn er skoðaður sést að þar kennir ýmissa grasa og ætti að vera eitthvað við flestra hæfi forvitni.

Þegar ég prufukeyrði þetta á Emilie vakti skráin "birgitte.jpg" mesta athygli hennar og viðbrögðin voru eitthvað í líkingu við "Hvem er Birgitte? Er det... Har du fået en kæreste?!"

Aðrir eru kannski forvitnari um lykilorðaskrána eða xxx möppuna...

En niðurstaða fjölskipaðrar dómnefndar ætti að liggja fyrir á laugardagskvöldið þegar lokað verður fyrir gabbið og talið upp úr gagnagrunninum.

Kveikjan

Uppfært: Ég gleymdi víst að vitna í heimildir.

Grunnurinn að hugmyndinni kviknaði fyrir ári þegar ég rakst á umfjallanir um aprílgöbb í blogospherinu svokallaða og Waferbaby hafði gert aprílgabb þessu líkt. (Mér sýnist reyndar að hann sé í ár búinn að taka útgáfuna sem ég stakk upp á við Má hérna um árið sem núverandi aprílgabb, þannig að hringnum er lokað.)

Tæknilega hliðin

Varað er við því að eftirfarandi er pínu tæknilegt. Viðkvæmum sálum er því bent á að fara beint í að skilja eftir athugasemd og rökstyðja val sitt.

Lykillinn að gabbinu er mod_rewrite möguleiki Apache sem býður upp á það að vísa vefslóðum annað innan vefsvæðisins.

Þannig eru allir linkarnir trúverðugir og virðast vísa á umræddar skrár (ekkert ?id=x subberí), en þar sem engin þessara skráa eða mappa er í raun til á vefsvæðinu (nema cgi-bin sem ég nota ekki) getur mod_rewrite gripið þær á bak við tjöldin og vísað áfram á síðu sem vistar valið í gagnagrunn.

Smákaka á svo að tryggja að gabbið birtist bara einu sinni á hverri tölvu/vafra samsetningu.

Það var svolítill höfuðverkur að búa til lista sem væri þokkalega trúverðugur en samt með bitastæðum valkostum (og má ekki innihalda nöfn sem eru raunverulega til) og ég bíð spenntur að sjá hver viðbrögðin verða. Bakgrunnsvirknin sem vistar valið í gagnagrunn er að mestu copy-paste úr sambærilegum fídusum annarsstaðar á vefnum.

Til að fá traustari niðurstöður nota ég humans/robots virknina mína til að sía þekktar leitarvélar frá án þess að skrá þeirra val. Enda er það í þeirra eðli að smella á alla mögulega linka og neita að taka við smákökum.

Lox bjó ég til falsaða færslu í RSS skrána mína til að fanga þá sem hugsanlega stóla á RSS lesara og hefðu þess vegna ekki kíkt á forsíðuna ella. Og fyrir þann markhóp passaði ég mig að þessi færsla sem þú ert að lesa birtist ekki í RSS-inu (a.m.k. ekki fyrr en eftir 1. apríl).

Was it good for you too?

Eitthvað um þetta að segja?


< Fyrri færsla:
Frekari prófanir og nýir tölvuleikir
Næsta færsla: >
Að gabbi loknu
 


Athugasemdir (9)

1.

Gísli Rúnar reit 31. mars 2006:

He he, góður... Eg var svo gott sem búinn að senda þér línu á MSN til að láta þig vita að vefurinn væri "niðri", en þá rak ég augun í að þú varst merktur Busy þar og þorði ekki að trufla þig. Þannig að ég fór að fikta og valdi einfaldlega fyrstu möppuna og hefði líklega valið xxx ef hún hefði verið efst.

2.

Huld reit 31. mars 2006:

Þetta kemst á listann yfir nördalegustu uppátæki sem ég hef á ævinni rekist á. Ég er ekki viss um að ég skilji ennþá um hvað málið snýst hahaha. Ég sá þetta allt saman og valdi Birgittu (hélt af einhverri undarlegri ástæðu að þar væri komin vinkona mín Birgitta Birgis?!).. mér fannst allavega ekkert skrýtið að sjá allt í einu baksviðs á thorarinn.com og fannst ekkert athugavert við nöfn skránna.

3.

Sigmar reit 31. mars 2006:

Ég, eins og Gísli Rúnar, ætlaði að vara þig við...sérstaklega þegar ég sá að þú varst e-a hluta vegna að geyma xxx möppuna þína (vegna þess að allir eiga sína xxx möppu) á vefþjóninum, en þú varst away og því ætlaði ég að bíða eftir að þú kæmir online...og ákvað að kíkja í xxx möppuna á meðan til að athuga hvort að hún bæri nafn með rentu. Annars fínt spaug, a.m.k. betra en tattú gabbið =o)

4.

Þórarinn með svarta sál reit 31. mars 2006:

Eftir að hafa lent í því að þurfa að feika fáfræði á MSN í dag hef ég ákveðið að virðast "Away" í dag - en það er semst lygi.

Ég hef það margt á samviskunni í dag að ég skammast mín ekkert fyrir þá ljósgráu lygi.

5.

rut reit 31. mars 2006:

hahahahaha! ég fór beint í xxx möppuna, fannst það langfyndnast. stebbi var þó á leiðinni í leyniorðskjalið. veit ekki hvort er betra að vera perri eða vefkrimmi...

6.

Jón Heiðar reit 01. apríl 2006:

Mér finnst þetta lélegasta xxx eitthvað sem ég hef smellt á internetinu. Djöfulsins metnaðarleysi er þetta Þórarinn!

7.

Jón Heiðar reit 01. apríl 2006:

og PS þú ert NÖRD!

"Lykillinn að gabbinu er mod_rewrite möguleiki Apache sem býður upp á það að vísa vefslóðum annað innan vefsvæðisins ... bla bla bla"

8.

Þórarinn sjálfur reit 02. apríl 2006:

Guilty as charged your honour.

9.

Hjörtur reit 02. apríl 2006:

hahaha frábært grín

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry