Ekki dauður enn

Það hefur lítið verið um dagbókarfærslur undanfarið, satt best að segja er stór þáttur í því dálítil tölvuleikjaskorpa mín sem hefur tekið stóran hluta tölvutíma míns undanfarna daga.

Ljósrauðhærðir tónleikar

Á skírdag fórum við Alex á tónleika með Blonde Redhead, Kristin Hersh og Reykjavík! (í öfugri röð).

Það var hin prýðilegasta skemmtun og hver flytjandi betri þeim fyrri. Ljósrauðhærða hljómsveitin (sem reyndust öll dökkhærð utan sköllótta íslenska bassaleikarans) voru hörkugóð.

Áður en þau stigu á svið var mælst til þess að ekki væri reykt nálægt sviðinu þar sem söngkonan væri slæm í hálsinum. Það var reyndar ekki að heyra og kannski fróðlegt að heyra í henni með fullri raddheilsu.

Á köflum hljómuðu þau reyndar mun fjölmennari en fjögur og hef ég helst trommuleikarann grunaðan um að hafa verið lúppu- og bandameistarann að trumbubaki.

Tónleikunum lauk reyndar með hálf-súrrealískri uppákomu.

Prógramminu lauk á miðnætti og áhorfendur tóku til við hefðbundin (og viðeigandi) uppklappslæti. Eftir langa mæðu kom svo söngkonan hálf-vandræðaleg upp á svið, þakkaði fyrir og sagði hikandi:

Don't you guys have some sort of curfew starting at midnight? I think we are not allowed to play more...

Á sviðsvængnum sást Nasa rótari hrista höfuðið af krafti en áhorfendur létu það ekki á sig fá og að lokum fór svo að hljómsveitin tók nokkur aukalög.

Mér finnst sjálfsagt mál að sýna föstudaginum langa tilhlýðilegri virðingu, en þetta var hálf súrrealískt allt saman. Það játast hér með að ég tók þátt í þeirri vanhelgun að hlusta á uppklappslög milli kortér yfir tólf og hálf-eitt aðfaranótt föstudagsins langa. (En tek fram að það var búið að loka barnum.)


< Fyrri færsla:
Spurning um hljóðeinangrun
Næsta færsla: >
Eplin batna bara
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry