Hvít lygi, lygi, haugalygi og tölfræði

Tölfræði er merkileg og hægt að snúa út úr henni á marga vegu. Núna er ég t.d. að verða kominn með upplýsingar sem svara til árstraffíkur á thorarinn.com og sé tölfræðin tekin án fyrirvara er ekki annað hægt að segja en að traffík sé framar vonum.

Það er alltaf erfitt að lesa nákvæmlega út úr vefumferðartölum, en ef alltaf er notuð sama aðferð er þó a.m.k. hægt að segja að niðurstaðan ætti alltaf að vera sambærilega vitlaus.

Ef ég skoða t.d. skráðan meðalfjölda heimsókna á dag á thorarinn.com var hann 30 heimsóknir í febrúar og hefur síðan vaxið nokkuð jafnt og þétt og var kominn í ca. 80 heimsóknir í haust, eins og sést á meðfylgjandi línuriti:

Meðalfjöldi heimsókna 2004

Janúar er greinilega að skera sig töluvert úr þessum tölum, með 143 heimsóknir það sem af er, en ég held að það sé ekki hægt skýra þá aukningu með því að hæla ritstjórnarstefnu thorarinn.com. Mér sýnist nebbnilega að þetta sé aðallega róbót frá Yahoo sem kemur í heimsókn, les 1-2 síður, lætur sig hverfa og kemur svo aftur. Og aftur.

Lestur RSS skrárinnar minnar hefur aukist töluvert síðustu mánuði (sótt ca. 94 sinnum á dag) en mér sýnist að RSS lesarar skráist ekki sem heimsóknir í þessu samhengi.

Lauslega áætlað sýnist mér mínar upplýsingar benda til þess að þriðjungur af umferðinni um vefinn séu leitarvélar og róbótar.

Það segir mér hins vegar að 2/3 séu raunverulegir lesendur. Hvað eru 55-60 manns að gera við að heimsækja þennan vef daglega? Ég bara spyr.

Á þessu rétt tæplega ári hef ég fengið 25.385 heimsóknir (visits), með 352.146 "hits" (síður og skrár, t.d. myndir). Samtals 4.126.073 KB í niðurhal, eða ca. 4GB...

Þess má til gamans geta að Vores Øl vefurinn okkar er núna kominn með 54.941 skráðar heimsóknir síðan hann var opnaður 21. desember. Nokkuð gott.


< Fyrri færsla:
Endurráðning
Næsta færsla: >
Nú er fokið í flest skjól...
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry