Toro rennt

Ekki í þeim skilningi að mér hafi verið rennt eitt eða neitt, heldur að ég hafi hlaupið - á þýsku. Í gær var sem sé brennt í fyrsta langhlaup sumarsins, sem samkvæmt borgarvefsjá reyndist 8,5 kílómetrar. Tempóið var með rólegra móti, enda stefnt meira á seiglu en spretthörku. Niðurstaðan varð hins vegar tími sem hefði lokið 10 kílómetrunum á 55 mínútum.

Það bendir því flest til að ég ætti að geta dröslast 10 kílómetrana eftir þjár vikur - að því gefnu að engir útlimir eða aðrir mikilvægir líkamshlutar taki upp á því að falla af.

Dugnaður við hlaupaæfingar sumarsins hefur vissulega verið ívið minni en að var stefnt - en þó kannski í samræmi við það sem mátti teljast raunhæft.

Samkvæmt bláu gallabuxunum sem ég keypti í haust en urðu of þröngar á mig snemma í vor, þá hefur mittismálið minnkað aðeins en læramálið varla svo neinu nemi (að því gefnu að það nafnorð, læramál, sé til).

Um miðjan maí steig ég á vog í fyrsta sinn frá jólum og komst að því að ég hafði bætt á mig á að giska 7 kílóum frá jólum. Í ljósi þess að ég hafði ekkert breytt mataræði eða atferli svo teljandi sé kom talan mér á óvart, þótt aukin framsetning magavöðva (og áðurnefndar gallabuxur) hefðu gefið vísbendingar um að eitthvað væri á seyði.

Jólaþyngdin mín síðastliðin jól var sú sama og þegar ég útskrifaðist úr menntaskóla fyrir 12 árum síðan, þannig að jafnvel þótt ég hafi bætt á mig nokkrum kílóum síðan er langt frá því að ég teljist feitur.

Hins vegar gæti þetta bent til þess að ég sé að verða gamall og efnaskiptin farin að hægja á sér. Við frændur höfum verið varaðir við því að það tilheyri erfðamengi föðurættarinnar að magavöðvarnir súnki hressilega fram frá og með þrítugsafmælinu. Huxanlega er ég bara svo seinþroska að þetta gerist tveimur árum síðar hjá mér.

Það gæti líka verið að það sé orkan sem fer í kroppsháravöxt sem hér skilji milli mín og normsins í föðurætt. Þótt spretta mín teljist vart merkjanleg á mælikvarða alvöru bringuhárabera er slíkt bruðl með aminósýrur óþekkt með öllu meðal föðurbræðra minna og nokkurra ónefndra sona þeirra.

Enda hef ég löngum haldið því fram að ég hafi erft bringuhárin fá mömmu. (Misskilji það hver sem vill.)


< Fyrri færsla:
Hjólað í leikhús
Næsta færsla: >
Going pastoral
 


Athugasemdir (2)

1.

Thelma Margrétarvinkona reit 29. júlí 2005:

Kem með í tíu kílómetrana, þó nokkuð öruggt að þú verðir að berea mig síðustu metrana:) hehh

2.

Þórarinn.com reit 29. júlí 2005:

Nú kemur sér vel að vera herðabreiður, því mér skilst helst á Sigmari bróður að ég gæti þurft að bera hann líka...

Ég tek ykkur bara á sitthvora öxlina ef þörf krefur.

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry