Hlaup afstaðið
20. ágúst 2005 | 2 aths.
Þá er Reykjavíkurmaraþoni lokið í ár. Við bræður mættum allir til leiks í 10 km og komum allir í mark án vandræða. Af bræðra(ein)vígi er það helst að frétta að Elli dustaði rykið af gömlum afreksíþróttatöktum og flengdi okkur. Sigmar sýndi hins vegar stóra bróður sínum tilhlýðilega virðingu og hélt sig nokkuð fyrir aftan.
Veðrið reyndist betra en búast mátti við, það rigndi fyrir ræsingu en á leiðinni var þurrt og jafnvel sól á köflum. Síðan kom hressilegur skúr þegar við vorum að rölta/trimma heim.
Varðandi tíma er ekki gott að segja, en ég held samt að ég hafi verið á ca. 52 mínútum sem ég er mjög ánægður með. Það skýrist þegar opinber tímataka verður birt.
Formið reyndist ágætt. Að vísu hélt ég heldur aftur af mér seinnihlutann, enda ýjaði maginn að bumbulleik ef ég fór of geist.
Frændgarðurinn var ekki eins fjölmennur og ég hafði átt von á. Ég hitti Hjörleif, Þórarin Alvar (sem varð rétt á undan mér í mark), Skúla og Birnu. Aðrir verðandi Vasar voru fjarverandi.
Þá er bara að sjá hvort ég kemst ekki örugglega í hlaupið að ári...
Líklega mun ég reyna eitthvað að trimma í Köben í haust, þó ekki sé nema til að reyna að skafa af mér nokkur kíló.
Athugasemdir (2)
1.
Sævar reit 22. ágúst 2005:
Ef það gengur ekki að trimma af sér kílóin geturðu þá alltaf hlaupið í spik.
2.
Þórarinn.com reit 22. ágúst 2005:
Það væru nú ill örlög ef hlaupin yrðu bara til að hlaða á mig spiki (eða speke eins og það hét í minni sveit).
En það verður þá bara að tækla það þegar þar að kemur...
Útrætt mál
Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.
Comments are closed for this entry