Hugleixkur höfundafundur
23. ágúst 2005 | 0 aths.
Í gærkvöldi greip ég hjól litlusystur traustataki og sté fákinn út á Eyjaslóð á fund í höfundahópi Hugleiks. Þar voru lesnir og ræddir fjölmargir einþáttungar auk spjalls um komandi leikár. Það verður ekki annað sagt en það verði nóg um að vera ef allar hugmyndir verða að veruleika.
Ég hafði reyndar ekkert fram að færa í lesmáli, en var töluvert virkjaður í að taka þátt í leiklestrum á ýmsum þáttum. Þannig reyndi ég meðal annars að svíkja fé út úr roskinni móður minni, keypti dömubindi og rottur auk þess að vera settur inn í heldur ógeðfellt starf. Margir prýðilegir þættir í smíðum.
Án þess að ég vilji láta of mikið uppi um verkefnahugmyndir þá ættu áhugasamir að geta séð mikið af Hugleixkum verkum í vetur. Verst að sjálfur á ég ekki von á að geta séð neitt af þessu.
Sú hugmynd kom reyndar upp að ég myndi gera dramatískt kommbakk í skítlegu hlutverki, ef guð og námsframvinda lofa. Nánar um það síðar...
Mér hafði auðvitað ekki dottið í hug að það gæti dimmt með kvöldinu þannig að ég neyddist til að hjóla heim ljóslaus í rigningunni að fundi loknum.
Seinnipart leiðarinnar var ég farinn að sjá það í hillingum að komast úr blautum gallabuxunum og fá mér hressingu áður en ég skriði undir sæng. Takmarkað útsýn um gleraugnagáttir gerði það að verkum að ég sá lítið annað en hillingar þessar.
Allt hafðist þetta og ég komst klakklaus heim, þótt ég væri bæði votur og sveittur.
Útrætt mál
Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.
Comments are closed for this entry