Bitinn aftan hægra
07. október 2005 | 3 aths.
Enn hefur ekki borið á auknum innrásarþunga silfurskottufjölskyldunnar í baðherberginu og enn hef ég ekki staðið þær að því að narta í mig (enda skilst mér að það sé lítt í þeirra eðli). Hins vegar hefur eitthvað kvikt bitið mig í hælinn, auk þess sem ég er reglulega að bíta sjálfan mig - mér til lítillar gleði.
Í fyrradag uppgötvaði ég það sem lítur út eins og flóarbit rétt fyrir ofan hælinn á hægri fæti. Nú er veður enn með nokkrum ágætum hér í veldi danadrottningar (og einstaka bauni sést á stuttbuxum) en sjálfur hef ég mest lítið verið á ferli berfættur. Þetta bit finnst mér því líklegast að ég hafi fengið í svefni, en hef hvorki orðið var við bitlegar flugur né flær hér á heimilinu.
Maður þarf að minnsta kosti ekki að upplifa sig einmanna með svona fjörugt dýralíf í kringum sig...
Verst hvað bitinu líkar illa við skó, það er kvöl og pína að ganga þótt ekki sé nema stuttar vegalengdir. Verður fróðlegt að sjá hvernig kláðinn verður í fótboltanum á morgun.
Fyrr í dag beit ég svo af alefli í innanverða vörina á mér, á stað sem ég er búinn að bíta ítrekað í upp á síðkastið. Eins og verða vill með sár í munni bólgnar það aðeins og þar með aukast líkurnar á að ég bíti í það aftur. Pirrandi.
Af drykkju(m)
Á morgun verður Tour de Chambre hér á hæðinni. Samkvæmt laganna hljóðan eiga þá allir gangbúar eftir að drekka a.m.k. 12 áfenga drykki áður en kvöldið er úti (12 herbergi hafa boðað þátttöku). Ég er ekki alveg að sjá að hænuhausinn ég standi undir því magni...
Mér sýnist ljóst að íslenskt brennivín er ekki boðið til sölu í sérverslunum áfengis hér á Amager og hef ekki gert mér ferð upp á meginlandið til að leita þar. Það verður því boðið upp á einhverskonar bolluafbrigði hjá mér.
Annars hefði maður haldið að það gæti verið góður bissniss í því að selja íslenskt brennivín hér í Köben, viðskiptamannahópurinn ætti a.m.k. að vera nógu stór.
Í gær var haldin smá drykkjuæfing á fimmtudagsbarnum, áfram verður æft í kvöld og svo spurt að leikslokum á laugardagskvöldið.
Ef ekki heyrist frá mér aftur í bráð hef ég líklega verið lagður einhversstaðar inn með áfengiseitrun.
Skál.
Athugasemdir (3)
1.
Óskar Örn reit 08. október 2005:
Skál sjálfur! Vildi annars bæta við vegna umræðu um Damien Rice og unaðinn við að uppgötva nýja tónlist að þú ættir að kíkja á Antony & the Johnson´s og diskinn þeirra "I am a bird now". Uppgötvun ársins, alger snilld! Minnir reyndar núna að ég hafi verið búinn að segja þér frá honum en ítreka það þá bara. Þeir spila í Fríkirkjunni hér 10. og 11. des og gettu einu sinni hver á miða á besta stað.....!
2.
Óskar Örn reit 08. október 2005:
...og svo neita ég algerlega að trúa því að brennsinn fáist ekki í baunaborg! Þú verður bara að leita betur...
3.
Þórarinn sjálfur reit 09. október 2005:
Það stemmir, þú hefur kynnt mig fyrir Antony og félögum - ég var einmitt að horfa á tónleika með þeim í sænska sjónvarpinu nýlega. Ég mun reyna að næla í þá klónum við tækifæri.
Bestu kveðjur í Fríkirkjuna :)
Mér finnst líka ólíklegt annað en að brennivín finnist hér í borg, bara spurning hvar. Kannski maður ætti að setja sig í samband við Íslendingafélagið?
Útrætt mál
Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.
Comments are closed for this entry