Heilbrigðistækniverkefnahugleiðingar

Nýlega hafa vinir mínir í heilbrigðisgeiranum fett fingri út í tæknihverfa langhunda í dagbókarfærslum mínum. Ég lofa ekki að slíkum færslum linni en þar sem ég er fús til að koma til móts við aðdáendur mína verður eftirfarandi langhundur með heilbrigðu ívafi.

Samkvæmt dagskrá á ég að hefjast handa við að vinna í mastersverkefninu mínu fyrsta febrúar næstkomandi (og skila í lok ágúst). Það er því rétt að fara að huga að því hvað ég ætla að skrifa um, með hvaða leiðbeinanda og hvaða hugsanlegum samstarfsmönnum.

Ég hef ekki rekist á neitt ákveðið viðfangsefni í náminu sem ég brenn sérlega fyrir að taka fyrir í lokaverkefninu, en veit þó að ég hef ekki áhuga á að vinna hreina heimildarritgerð (vil framkvæma einhvers konar rannsókn - þótt ekki sé nema viðtöl) og ég sé ekki fyrir mér að búa til eitthvað forrit/kerfi.

Sjónir mínar beinast núna einkum að því að vinna lokaverkefni sem tengist á einhvern hátt heilbrigðisgeiranum, bæði þykist ég þar hafa ákveðin sambönd heima á Íslandi (já, þar horfi ég aðallega til þín pabbi) og einnig fæst sá kennari sem ég hef hvað mesta trú á sem leiðbeinanda í lokaverkefni einmitt við að rannsaka notkun upplýsingatækni í heilbrigðiskerfinu.

Ég fundaði með honum í síðustu viku þar sem hann sagði mér frá þeim rannsóknarverkefnum sem unnið er að í augnablikinu (eða eru í uppsiglingu) í samstarfsverkefni nokkurra háskóla hér á Gamla-Sjálandi. Við ræddum vítt og breitt hvernig hægt væri að afmarka viðfangsefnið til að það verði af viðráðanlegri stærð. Við skildumst með það að ég myndi leggja höfuðið í bleyti og við myndum ræða betur saman fljótlega.

Á föstudagsbarnum þar áður hafði ég spjallað við Jens félaga minn, hvurs faðir er líka læknir og hann sagði mér frá því að vinnustaður pabba hans væri farinn að nota lófatölvur til að færa sjúkraskýrslur jafnóðum meðan á samtali læknis og sjúklings stendur. Það fer víst mjög í taugarnar á pabbanum hvernig hann upplifir að tæknin vinni á móti hans faglega máta að greina sjúklinginn; valmyndir og listar hamli honum í að byggja á sinni innsýn og reynslu og hvernig sú hömlun lækki um leið hans faglegu ímynd í augum sjúklingsins. (Ef einhver skilur hvað ég er að reyna að segja).

Þetta minnti mig líka á nokkuð sem pabbi minn hefur spekúlerað í (og ég hef m.a. dregist inn í sem PowerPoint smiður), þ.e. ytri áhrifaþætti sem eru til staðar í samtali læknis og sjúklings og hann líkti við eins konar vofu, herra X, sem sveimaði yfir samtalinu og hefði áhrif á upplifun beggja.

Samanlagt vekur þetta hugmyndir um að skoða hvaða áhrif notkun upplýsingatækni hefur á samtal læknis og sjúklings, hvernig hún getur orðið til að liðka fyrir (eða að minnsta kosti þannig að tæknin ekki þvælist fyrir).

Við feðgar áttum síðan ágætt símtal þar sem við smjöttuðum í sameiningu á þessum vangaveltum mínum. Hann vildi meina að það væru einkum tvenns konar framgangsmátar; annars vegar almennir læknar sem byggja á reynslunni til að koma auga á trúlegustu orsökina, reyna að afsanna hana á einfaldan hátt og ef það gerist ekki byggja þeir næstu skref á þessari tilgátu (þar til annað kemur í ljós), hins vegar sérfræðingar sem á líkan hátt byggja á reynslunni til að koma með tilgátu og framkvæma síðan prófanir sem að mestu byggja á því að útiloka aðra möguleika.

(Til að verja starfsheiður pabba gamla er rétt að taka fram að ofantalið er minn skilningur á því sem okkur fá á milli.)

Hann nefndi líka "póst-móderníska sjúklinginn", en ég ætla ekki að gera honum það að reyna að endurtaka hans útleggingu á því hugtaki. (Þótt forvitnileg sé.)

Mínar hugmyndir eru því núna að taka samtal sjúklings og læknis sem útgangspunkt og skoða hlutverk upplýsingatækni í þeirri "aðstöðu". Nákvæmlega hvernig veit ég ekki, en mögulegir vinklar væru t.d.:

  • Sú teoría sem til er um samtal læknis og sjúklings.
  • Líkindi og ólíkindi með framgangsmátunum tveimur sem áður eru nefndir.
  • Ytri áhrifaþættir varðandi rafrænar sjúkraskrár og notkun þeirra.
  • Þekkt vandamál við notkunina.
  • Úttekt á þeim lausnum sem til eru, notendaviðmóti þeirra o.s.frv.
  • Tillögur að endurbótum á lausnum sem til eru.
  • O.s.frv.

Þessi listi er frekar ósamstæður og grófunninn, enda er þetta mín fyrsta tilraun til að skrá þessar óljósu hugmyndir mínar.

Eitt af verkefnum vikunnar verður að reyna að skrá þessar hugmyndir betur og leggja drög að því hvernig ég fer að því að fiska mér einhvern til að vinna með - enda held ég að þessar hugmyndir séu heldur víðfemar fyrir mig einan.

Hér set ég endapunktinn, enda er annar þáttur af nýju seríunni af Lost byrjaður í sænska sjónvarpinu...


< Fyrri færsla:
Bland í vefpoka
Næsta færsla: >
Að fríi hverfandi
 


Athugasemdir (4)

1.

Ása Hildur Guðjónsdóttir reit 18. október 2005:

Sæll ég er ein af laumu netverjunum sem er farin að kíkja reglulega inn á bloggið þitt. Hvernig ég kom þar fyrst inn man ég ekki en finnst námið þitt áhugavert og það sem þú skrifar um það. Er sjálf nemi í Veftækni.
En allavega líst mér ferlega vel á þessa hugmynd þína að mastererkefni endilega þróaðu hana áfram.
Var hjá lækni í dag sem var meirihluta tímans sem ég var hjá honum með bakið snúandi að mér og nefið ofan í tölvunni. Fannst þetta óspennandi nálgun læknis og sjúklings.
Takk fyrir mig

2.

Jón Heiðar reit 20. október 2005:

Mín upplifun af því að vera á sjúkrahúsum, t.d. þegar við höfum verið með Ragnheiði þar er að það lendir á okkur foreldrum að útskýra oft og mörgum sinnum fyrir læknum og hjúkrunarfólki hvað er að barninu. Þannig lendir það í raun á foreldrum að túlka og útskýra oft hvað er að. Betra væri að þessu væri náð niður strax og aðrir þeir sem meðhöndla barnið geti þá komist í þessar upplýsingar. Þá færi minni tími og orka í þessar löngu sögur af því hvað er að og hvað er búið að gera fyrir hana. Læknar og hjúkrunarfólk hafa enga hugmynd um hvað er búið að gera fyrir viðkomandi sjúkling oft á tíðum eftir að hann kemur inn á spítalann.

Eins hef ég verið í þeirri aðstöðu að vera með nýfædda dóttur mína nýkomna úr hitakassa vegna kemískrar lungnabólgu á stofu með fyrirbura og öðru veiku barni til á stofu sem nýbónuð með sterku bensínbaseraðu bóni þannig að okkur fullorðna fólkinu sundlaði.

Ég hef reyndar einu sinni stöðvað lækni og hjúkrunarfólk í að gera ranga aðgerð á dóttur minni og var það vegna þess að gerð voru mistök í skráningu. Ég hef aldrei séð jafn sneypt fólk í hvítum sloppum. Þetta var þó á einkarekinni stofu.

3.

Þórarinn sjálfur reit 21. október 2005:

Púff, þetta hljómar spúkí!

Vonandi tekst mér að hafa áhrif í rétta átt ef af þessu verður :)

4.

Óskar Örn reit 21. október 2005:

Fróðlegt að lesa þessar athugasemdir Jóns Heiðars frá mínum sjónarhóli sem læknir á Barnaspítalanum. Get meira en vel skilið hversu óþægilegt það er að finnast maður sem foreldri bera ábyrgð á að koma stundum flóknum læknisfræðilegum upplýsingum til skila þannig að tryggt sé að rétt sé brugðist við. Þetta var auðvitað alla tíð mikið vandamál þegar allt var á pappír og geymt í e-um skjalahvelfingum hér og hvar um bæinn, mismunandi óaðgengilegt sérstaklega um miðjar nætur og um helgar. Spítalinn og heilsugæslan eru tiltölulega nýverið farin að nota samræmt sjúkraskrárkerfi, svokallað SÖGU-kerfi, þar sem á að vera hægt að nálgast á fljótlegan hátt allar fyrri upplýsingar um sjúklinga varðandi komur á bráðamóttökur, gönguldeildir og innlagnir. Kerfið er enn í mótun og talsverðir vankantar á því enn auk þess sem mönnum gengur misjafnlega að læra að nýta það. Auk þess nær það enn bara sinn eiginn aldur aftur í tímann, þ.e. 3-4 ár.
Hér á Barnaspítalanum og þá sérstaklega á Bráðamóttökunni reynum við kerfisbundið að leita upplýsinga um fyrri sjúkrasögu krakkana í þessu kerfi áður en við förum að sinna þeim einmitt til að vera ekki að leggja þessa ábyrgð og óþægindi á foreldra. Hér erum við auðvitað mikið með krakka sem koma aftur og aftur vegna flókinna vandamála og þá losnar fjölskyldan yfirleitt við að romsa öllu upp úr sér í n-ta sinn fyrir nýtt og nýtt fólk auk þess sem nokkuð tryggt er að maður er strax með réttar upplýsingar. Veit ekki hvort Jón Heiðar var hér með stelpuna sína áður en þetta komst í gagnið.
Hins vegar getur oft verið gagnlegt að heyra hvað foreldrar hafa að segja um fyrri veikindi því oft hafa þau annan skilning á e-um upplýsingum en við og gott að "tékka af" að allir séu að hugsa eins til að fyrirbyggja hræðslu og misskilning. Þannig að fólk hér er s.s. meðvitað um þennan þátt og reynir eftir fremsta megni að gera þetta vel, a.m.k. í dag og eftir því sem tímar líða mun þetta skráningarkerfi væntanlega batna og verða aðgengilegra, t.d. í lófatölvuformi. Gallinn er auðvitað að aldrei verður hægt að treysta því að upplýsingar á tölvutæku formi komist ekki í hendurnar á röngum aðilum.
Hvað varðar þessar uppákomur með bónið og sérstaklega röngu aðgerðina þá er það auðvitað ófyrirgefanleg mistök sem eiga aldrei að eiga sér stað. Get rétt ímyndað mér að fólkið hafi verið sneypulegt og það með réttu!

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry