Að fríi hverfandi

Nú er fyrsta haustfríi minnar skólagöngu að ljúka. Reyndar eru enn rúmlega fjórir sólarhringar í næsta fyrirlestur, en fríinu er strangt til tekið að ljúka. Þetta hefur verið róleg vika, einkum varið fyrir framan tölvuskjáina mína tvo, þó með örlitlu félagslífi inn á milli.

Þannig heilsaði ég upp á Steina og Gunni á fimmtudaginn með harða diskinn minn í farteskinu. Þar komumst við að því að þótt makkinn geti lesið Windows formataða harðdiskinn minn (NTFS) getur hann ekki skrifað á hann. Það þótti okkur báðum heldur klént, sér í lagi þar sem eitt af markmiðum heimsóknarinnar var að fá nýjan tónlistarlegan innblástur - það hafðist þó eftir öðrum leiðum þannig að nú hlusta ég á torrætt hip-hop, kvikmyndatónlist og aðra furðutóna.

Á fimmtudagskvöldið var svo hópferð héðan af hæðinni á fimmtudagsbarinn þar sem við tókum nokkrar umferðir af pool samkvæmt fornri hefð. Þar bar svo við að ég, sem hef venjulega verið ívið skárstur í púlinu, stóð mig afleitlega og laut mitt lið í grænan borðdúkinn 1-3. Ég hef lofað bót og betran í næstu viku.

Þar var einnig ákveðið að stefna að pókerkvöldi hæðarinnar á föstudag eftir viku. Það gæti orðið prýðileg skemmtan.

Bjórar vikunnar

Í gær skrópaði ég svo á föstudagsbar skólans, enda grunaði mig að hann væri kannski fámennur svona í fríinu. Þess í stað kíkti Hjörtur skólabróðir og nágranni í heimsókn og við sötruðum bjór og ræddum heima og geima (einkum þó skóla- og/eða tæknitengda).

Skróp á föstudagsbarinn kom þó ekki í veg fyrir brögðun snobbbjóra, að þessu sinni írskan Kilkenny (sem ég þekki af góðu einu) og Single Malt bjór (!) frá skoska brugghúsinu Marston's. Þeir ollu ekki vonbrigðum.

Kilkenny og Marston's Single Malt

Það gerði hins vegar púrtvínið sem ég keypti mér í vikunni. Eins og stundum vill verða féll maður fyrir tilboðsvíninu, enda leit það sæmilega út - 1998 árgerð og í virðulegum umbúðum. Bragðið er ekki slæmt, en ég get ekki fellt mig við þurrt púrtvín - það passar bara einhvern vegin ekki.

Sæng að syngja sitt síðasta?

Það sem af er hausti hafa verið viðvarandi gæsadúnsbólstrar á gólfum sem ljóslega eiga upptök sín í dúnsænginni minni. Þegar ég setti utan um sængina eftir þvotta í vikunni sökk vísifingur hægri handar á kaf inn í sængina þegar tauið gaf sig. Fingurinn var endurheimtur án teljandi áverka, en mér sýnist málmþreyta vera að hreiðra um sig í sænginni góðu og spurning hvenær hún leysist upp í sameindir.

Umrædda sæng eignaðist ég þegar ég hóf nám í MA og hef þar með átt hana hálfa æfina! Eðalsæng úr Rúmfatalagernum...

Af boltaleiknum

Eins og áður nefnt hefur stórum hluta frísins verið varið fyrir framan skjáina mína. Þar hef ég haldið áfram að brasa við leikinn sem ég ætla að skila sem lokaverkefni í Flash-kúrsinum.

Minnstur hluti tímans hefur reyndar farið í sjálfa leikvirknina, meira að reyna að setja upp umgjörðina með skynsamlegum hætti; hvenær hverju borði lýkur, hvernig haldið er utan um leiðbeiningar og svo framvegis. Mynstrið er oft þannig að þegar ég er farinn að fá eitthvað til að virka, fer ég að taka til í því sem ég er búinn að gera - færa til og setja upp á meira "pró" máta, með meðfylgjandi ófyrirséðum vandamálum og höfuðklórum.

Þegar kemur að óskiljanlegum gátum og óvæntri hegðan hefur reynst vel að taka hlé til að þvo upp, eða rölta út í matvörubúð.

Í dag ætla ég að taka mér frí frá forrituninni, en stefni að því að skella upp forsmekk að leiknum hér í byrjun næstu viku (að því gefnu að ekkert óvænt komi upp á).


< Fyrri færsla:
Heilbrigðistækniverkefnahugleiðingar
Næsta færsla: >
Tilvistarleg símkreppa
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry