Tilvistarleg símkreppa

Síðan rafhlaðan í trausta og trúfasta Nokia 3210 símanum mínum gaf í öllum aðalatriðum upp öndina síðastliðið vor hef ég verið á leiðinni að kaupa mér nýjan síma. Til bráðabirgða fékk ég lánaðan síma hjá Sigmari bróður sem ég er enn með, en þarf að fara að skila honum og fá mér minns eigins. Það er hins vegar hægara sagt en gert að finna rétta símann í þeim frumskógi sem farsímaúrvalið er orðið.

Lífið var einfaldara í gamla daga, þegar ekkert kom til greina annað en að kaupa Nokia síma og spurningin var bara hvern af þeim 4-5 símum sem voru í boði maður valdi. (Og hvar sem maður var gat maður treyst því að til væri Nokia hleðslutæki til að bjarga manni ef þörf krafði.)

Ég var frekar seinn til að stökkva á farsímabyltinguna (a.m.k. í því vinnuumhverfi sem ég var í á þeim tíma - hátindi vefbólunnar) en fyrsti (og hingað til eini) síminn sem ég keypti mér var sem sé Nokia 3210:

Nokia 3210

Hjá borgarverkfræðingi var ég svo með 3310 síma, sem ég komst að nýlega að mun vera mest selda rafeindatæki allra tíma. Nokia hefur selt 126 milljón eintök af honum (sem mun jafngilda 13.500 kílómetrum ef þeir væru allir lagðir enda við enda; frá Helsinki til Santiago í Cile). Ég var nú alltaf ánægðari með minn síma, en núna þegar ég er búinn að slíta út tveimur rafhlöðum er kominn tími á að uppfæra.

Ég hef verið með Ericsson T630 í láni frá Sigmari bróður, sem benti mér meðal annars á að sá sími er léttari en rafhlaðan úr gamla símanum!

Sony Ericsson T630

Reynsla mín af þeim síma (sem er með litaskjá, myndavél, vefaðgangi og alls kyns fídusum) er sú að ég er bara að nota tal og SMS (sama dótið og á gamla símanum). En hann hefur vissulega sína kosti sem ég er að nota, eins og t.d. betri símaskrá, vekjaraklukku sem þekkir vikudagana auk þess að fara áberandi betur í vasa. Enn hef ég ekki tekið mynd á hann sem ég hef séð ástæðu til að vista og hef hvorki sent né móttekið MMS skilaboð.

Í apríl hafði ég orð á hrifningu minni af væntanlegum síma frá Sony Ericsson, K750i, með myndavél, mp3 spilara og öllu stöffinu. Núna finnst mér hins vegar ljóst að svoleiðis sími er algert overkill fyrir mig.

Kröfur mínar til síma eru því að hann sé:

  • Léttur
  • Með gott notendaviðmót
  • Hægt að tala í hann
  • Hægt að senda SMS

Myndavél, útvarp, mp3 spilari o.s.frv. er engan vegin nauðsyn. Þá nota ég frekar bara iPodinn og gömlu góðu myndavélina (og hlusta hvort eð er aldrei á útvarp).

Þótt ég sé ekki með sérlega feita putta eru sumir nýjustu símarnir með svo litla takka að ég á í basli með að nota þá, síminn hans Sigmars sleppur hvað þetta varðar - en takkarnir mega varla minni vera.

Ég er því ljóslega ekki að falla fyrir fídusabrjálæðinu og mér þóttu mjög fróðlegar niðurstöður úr rannsókn sem nemandi við skólann hafði gert á notendaviðmóti farsíma frá 1994 til dagsins í dag. Hann hafði safnað símum af ýmsum gerðum frá þessu tímabili og fékk notendur til að framkvæma hefðbundnar aðgerðir á þeim (senda SMS, stilla klukkuna, velja hringitóna)...

Niðurstaðan varð einna helst sú að þægindi hefðu toppað um það leyti sem 3310 kom fram, eftir það hefði möguleikum fjölgað svo mikið að valmyndirnar væru orðnar of umfangsmiklar til að vera þægilegar í notkun. Sumir framleiðendur hefðu hins vegar lag á að slípa viðmótið þannig að jafnvel þótt verkefnin taki lengri tíma séu notendur sáttir og upplifi ekki pirring.

Þó sættir töffarinn í mér (sem er þarna einhversstaðar - þótt hann liggi stundum djúpt) ekki við að kaupa einhvern ódýran ömmusíma - jafnvel þótt slík græja uppfylli allar mínar þarfir. (Farsímaþarfir, þ.e.)

Enn eitt flækjustigið er svo kjör og binding. Maður getur fengið ágæt kjör á ólæstum símum, en ef ég kaupi síma af Telia (þar sem ég er núna með "frelsis-áskrift") og bind mig í 6 mánuði fæ ég sömu síma ódýrar og að auki með allri minni notkun í þessa 6 mánuði innifalda!

Eftir 6 mánuði er svo hægt að opna símann sér að kostnaðarlausu og nota t.d. heima á klaka. Aðal ókosturinn við það að skella sér á svoleiðis tilboð er að ég væri þá símalaus heima um jólin og í fyrirhugaðri Svíþjóðarferð á Vasagönguna.

Þrátt fyrir allt ofantalið verð ég að viðurkenna að ég er svolítið skotinn í Motorola V3 símanum; töff útlit, risastór skjár (og annar minni), þægilegir takkar og passlega léttur. Þótt ég sé ekki vanur samlokusímum held ég að það sé lágur þröskuldur að yfirvinna:

Motorola V3

Hann kostaði um 50.000 íslenskar kringum síðustu jól(!), en er núna kominn niður í tæpar 18.000 (með 6 mánaða notkun). Síma eins og Sigmars þyrfti ég að borga ca. 11 þúsund íslenskar fyrir og áðurnefndur K750i kostar um 27.000.

Spurningin er því hvað maður spreðar í mikinn töffaraskap. Hafa lesendur einhver góð ráð til ráðvillts neytanda?


< Fyrri færsla:
Að fríi hverfandi
Næsta færsla: >
Látum leika hefjast
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry