Af óæskilegum innflytjendum

Beðist er velvirðingar á því að ég hafði ekki rænu á að setja fyrirsögn í þessum stíl á færsluna frá í fyrradag. Í ljósi umræðunnar í þjóðfélaginu og í vinnunni hefði það auðvitað verið ídeal, en ég kveikti ekki á því þar sem ég sat við makkann með eiturbrúsa í einari og dráp í huga.

Síðast þegar til mín spurðist var ég á leið að athuga með ástandið eftir að hafa eitrað inn í umbúðirnar af sófanum.

Niðurstaða þeirrar athugunar var að stór hluti var dauður, en slatti hafði leitað frá eitrinu og reyndi að ná andanum kringum loftljósið. Ég greip hins vegar ryksuguna og ryksugaði þær upp, jafnt lífs sem liðnar.

Eftir að hafa rifið umbúðirnar utan af og troðið þeim í svarta ruslapoka velti ég sófanum sem flugurnar höfðu fylgt á hvolf og vætti botnstykkið vel með eitri, þannig að hafi eitthvað kvikt verið þar í felum ætti svo ekki að vera lengur.

Ég varð hins vegar ekkert var við ummerki um aðrar kynslóðir þessara flugna, hvorki fyrri né síðari.

Örfáar eftirlegukindur höfðu falið sig í gardínunum, en ég vann bug á þeim þarna á miðvikudagskvöldinu með ryksugunni góðu.

Ryksuga - sannkallað "killer hardware".

"Suck 'em all!"

Síðan hefur ekki bólað á neinu og sófinn hefur verið vígður til DVD gláps og almennrar leti. Stóðst hann prófið með sóma.

Það er kannski rétt að nefna að ég varð ekki var við að neinar flugur væru í sófanum sjálfum, heldur voru þær inn á milli plast- og pappalaganna utan um hann. Hvort það stafar af því að formóðirin hafi verpt í umbúðirnar eða hvort flugurnar voru byrjaðar að leita út í birtuna þori ég ekki að fullyrða.

Ég á ekki von á að þetta láti neitt á sér kræla aftur, en til að vera 100% ætla ég að eitra botninn aftur eftir svona viku.

En nú fer þetta að minna á heimili aftur, kominn sófi, sjónvarp og hljóðkerfi.


< Fyrri færsla:
Sófi og flugnafjöld
Næsta færsla: >
Nota Mínar Stillingar
 


Athugasemdir (1)

1.

Sigmar reit 11. nóvember 2006:

Því eins og lífspekin segir: "Hvergi er heimili þar sem ekki er hljóðkerfi"

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry