Nota Mínar Stillingar

Verkefnið Stillingar.is / Mínar Stillingar er hugarfóstur Más félaga míns og er bráðsnjallt fyrir þá sem á þurfa að halda.

Og gagnlegt fyrir öll okkur hin.

Þetta er eitt af þeim þremur verkefnum sem ég ýjaði að fyrir stuttu. Ég held ég fari rétt með að Mínar Stillingar hafi verið verkefnið sem ég kallaði "pínu leyndó".

Frekar en að hafa um það eitthvað fleiri orð, vísa ég bara á stillingar.is (vonandi duga þær upplýsingar sem þar eru til skilnings) (ef ekki mega lesendur gjarnan láta mig vita). Við eigum reyndar eftir að bæta aðeins meiri upplýsingum þarna inn, en fyrir almenna notendur ættu aðalatriðin að vera ljós.

Ég held að þetta eigi eftir að slá í gegn, enda hugmyndin snjöll og ég held að kostnaður eigi ekki að standa hagnýtingu fyrir þrifum.

Heimavinna

Eitt af því sem ekki er komið inn á vefinn er kynningarmyndband sem ég hef verið að vinna við heima á kvöldin - þ.e. að búa til grófa frumútgáfu og grófa talsetningu, sú frumútgáfa verður ekki gerð opinber.

Til bráðabirgða er ég búinn að skella inn javascript hnappi þjónustunnar hérna uppi til vinstri. Hann fellur reyndar eins og flís við rass inn í útlitið mitt, en ég á eftir að nördast aðeins og búa til server-side virkni svipað og Borgar vinnufélagi minn er með (huxanlega jafnvel forritunarvirkni stolinni frá honum).

Þangað til verður þetta bara tengt með brútal aðferðinni. Sem kemur reyndar bara merkilega vel út.

Þessu tengt lét ég loks verða af því að tilgreina tungumál síðunnar, til bráðabirgða eru allar síður merktar sem íslenskar og enskir kaflar (margir hverjir) merktir sérstaklega. Þarf að finna einhverja snyrtilegri lausn á því við tækifæri.

Enn meira nörd

Smá lokanörd í þessa færslu. Tónlistarstreymið yfir þráðlausa netið hefur einstaka sinnum verið að hökta undanfarna daga. Ég gat mér þess til að það væri líklega truflun vegna nágrannaneta sem ylli (enda eru yfirleitt 2-5 önnur net sýnileg). Nú er búið að skipta um rás á routernum og við fyrstu prufur virðist þetta vera að virka mjög vel.

5000 mbps prófið stóðst kerfið a.m.k. með sóma.


< Fyrri færsla:
Af óæskilegum innflytjendum
Næsta færsla: >
Þvílíkur ógeðslegur kuldi
 


Athugasemdir (1)

1.

Jón Heiðar reit 16. nóvember 2006:

Til hamingju með þetta.

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry