Getur lengi versnað

Í dag rakst ég á mbl.is á tragikómíska lýsingu á ökumanni sem lögreglan hafði afskipti af. Mér segir svo hugur að blaðamanninum hafi ekki leiðst að berja þessa klausu saman.

Sannast hér að stundum er sannleikurinn lygasögunum lygilegri.

Í Árbæ hafði lögreglan hendur í hári 19 ára pilts sem gat ekki framvísað ökuskírteini enda aldrei öðlast slík réttindi. Pilturinn var ekki heldur með bílbelti og þá var eitt nagladekk undir bílnum sem hann sagðist hafa fengið lánaðan. Það kannaðist eigandi bílsins hins vegar ekki við þegar lögreglan hafði samband og sagði bílnum hafa verið stolið. Til viðbótar fannst reiðhjól í bílnum og reyndist því hafa verið stolið skömmu áður en hjólinu var komið aftur í réttar hendur. Í ofanálag reyndist pilturinn vera ölvaður en ekki gekk þrautalaust að fá hjá honum sýni. Þegar átti að láta hann undirgangast öndunarpróf bar hann því við að hann kynni ekki að blása. Pilturinn fékkst þó með semingi til að blása í mæli lögreglunnar og var handtekinn í kjölfarið.

(Ég vek sérstaka athygli á vandvirkni blaðamannsins við að endurtaka ekki samtengingarorðin.)

Þó maður geti glott yfir frásögninni er ekki laust við að mann hrylli við því að eiga von á því að fá að upplifa svona ökumenn í (bókstaflegu) návígi í umferðinni.

Fréttin í heild sinni: Réttindalausir ökumenn í umferðinni


< Fyrri færsla:
Fyrsti bolurinn uppsettur
Næsta færsla: >
Auglýsing styður forsíðufrétt
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry